24 Nóvember 2014 12:00
Í ljósi fyrirspurna frá fjölmiðlum vegna manns sem lögreglan handtók á Ísafirði aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember sl. þykir lögreglu rétt að upplýsa um eftirfarandi :
· Lögreglan fór að umræddu húsi til að koma manninum til hjálpar.
· Maðurinn var vopnaður hnífi og bæði hótaði og reyndi ítrekað að veita lögreglumönnum áverka með hnífnum.
· Lögreglumenn reyndu með fortölum að fá manninn til að leggja frá sér vopnið. Þess í stað veittist hann að lögreglumönnum með hnífinn á lofti. Þá var kylfu og mace varnarúða beitt. Þegar ljóst var að það hafði ekki tilætlaðan árangur var ákveðið að vopnast byssum. Að vopnast merkir að lögreglumenn setja á sig viðeigandi varnarbúnað og skammbyssur í slíður. Ætla má að þegar varnarúðanum og kylfu var beitt hafi maðurinn handleggs- og fingurbrotnað.
· Þegar maðurinn gerði sér grein fyrir alvarleika málsins kom hann út úr húsinu og gaf sig á vald lögreglu.
· Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa en vakthafandi læknir strax kallaður til. Læknirinn skoðaði manninn og ákvað næstu skref varðandi frekari læknismeðferð.
· Í aðgerð lögreglu voru byssur ekki teknar úr slíðrum.
Eins og gefur að skilja stendur ekki til að reka þetta mál í fjölmiðlum eða rekja málavexti í smáatriðum en lögreglustjórinn á Vestfjörðum telur aðgerðir hafa verið réttmætar miðað við aðstæður en harmar meiðsli mannsins og vonar að hann nái sér að fullu. Hegðun hans var hins vegar óboðleg, stórháskaleg og hættuleg lífi og heilsu lögreglumanna á vettvangi og eins hans eigin lífi. Lögreglan biður fólk að sýna málinu skilning og velta fyrir sér alvarleika þess. Hugleiða varnir lögreglumanna við að verjast árás hnífamanns eða allra þeirra sem þurfa að standa í þeim sporum.
Rannsókn málsins er á lokastigi og verður síðan sent ríkissaksóknara til meðferðar. Það er hins vegar réttur þeirra sem telja á sér brotið að leita réttar síns.