29 Júní 2011 12:00

Hæstiréttur hefur í dag staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um gæsluvarðhald yfir meintum barnaníðingi í Vestmanneyjum.  Þeirri niðurstöðu dómsins er fagnað.  Vert er hinsvegar að hafa í huga að með henni er gengið lengra í  skilgreiningu á hugtakinu „almannahagsmunir“ en áður hefur verið gert.  

Settur saksóknari kaus að lýsa því, við flutning kröfunnar fyrir Héraðsdómi Suðurlands,  sem mistökum Lögreglustjórans á Selfossi að hafa ekki gert kröfu um gæslu yfir meintum geranda.  Þetta gerir saksóknarinn vitandi vits að óformleg samskipti höfðu farið fram milli embættanna um mögulega gæsluvarðhaldskröfu bæði við upphaf máls, þegar upplýsingar um myndefnið lágu fyrir og við ábendingar barnaverndarnefndar Vestmanneyja í mars s.l.   Niðurstaða þeirra samskipta var samdóma álit um að ekki skyldi krefjast gæsluvarðhalds.  Ábyrgðin á þeirri ákvörðun er hinsvegar lögreglustjórans. 

Það hefur vakið athygli að sú ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi að upplýsa sem minnst um málið meðan Hæstiréttur hefur haft það til umfjöllunar hefur orðið til þess að einstakir fjölmiðlar og fjölmiðlamenn hafa viðhaft hótanir um að rægja lögreglustjórann vegna þess að þeir hafa ekki fengið allar upplýsingar um málið.  Þeir hafa lagt í þá vinnu að kalla til viðtals „sérfræðinga“  til álits og þannig sett yfirmenn annarra lögregluliða í þá stöðu að vitna um rannsókn máls sem þeir hafa ekki aðgang að til að kynna sér.

Sú ákvörðun að upplýsa ekki um atriði máls á ekki lengur við núna enda efnisatriðum lýst í úrskurði héraðsdóms og Hæstaréttar.  Ein af ástæðum þess að ekki var farið fram á gæsluvarðhald á sínum tíma var að sá friður sem væri um þolandann,  á meðan málsmeðferð stæði,  væri honum meira virði en það ömurlega fjaðrafok sem nú skekur fjölmiðla þar sem sá sem ábyrgur er fyrir rannsókn  máls hefur verið gerður að „skúrkinum“ í því.

Rannsókn máls þessa hefur verið umfangsmikil.  Hún hefur verið unnin af yfirvegun af reyndum rannsóknarlögreglumönnum lögregluliðanna á Selfossi og í Vestmanneyjum.  Ábendingar um reynsluleysi þeirra eru í besta falli settar fram af þekkingarskorti en kynferðisbrot gegn börnum hafa því miður verið algeng verkefni rannsóknardeildarinnar mörg síðastliðin ár.  Þannig hefur deildin rannsakað 177 kynferðisbrotamál frá 1. janúar 2007 til dagsins í dag, 40 til 50 mál ár hvert.   Þyngsti dómur vegna kynferðisbrots gegn barni á Íslandi, 8 ár, var kveðinn upp eftir rannsókn þess máls hér við embættið.

Frekari umræða eða umfjöllun mun ekki fara fram um mál þetta í fjölmiðlum af hálfu embættis Lögreglustjórans á Selfossi.  Hvatt er til þess að fjölmiðlar og þeir sem kjósa að tjá sig á veraldarvefnum um málefni sem þessi geri það af ábyrgð og hafi í huga áhrif þeirrar umfjöllunar á þolendur brota og aðstandendur þeirra.