17 Maí 2011 12:00

Embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði hefur áður svarað fyrir um hvort starfsmenn þess hafi átt einhver samskipti við umræddan mann Mark Kennedy (Stone) í hópi mótmælenda við Kárahnjúka meðan á framkvæmdum stóð þar. Embættið ítrekar að svo var ekki.

Að gefnu tilefni vill embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði taka eftirfarandi fram vegna myndbirtingar af handtöku manns við Kárahnjúka sumarið 2005 á heimasíðu Saving Iceland, og fullyrt að sé Mark Kennedy (Stone). Vefritið Smugan hefur sett þetta fram sem sannleika en aldrei haft samband við embættið til að fá skoðun þess á því hver sé á þessari mynd.  DV gerði það hins vegar og gat svara embættisins við því hvort um Mark væri að ræða á umræddri mynd. Eftir skoðun hjá embættinu á myndinni er ljóst að hér er ekki um Mark Kennedy (Stone) að ræða heldur annan mann. Lögreglunni er ljóst hver sá maður er og þurfti að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúka.

Að framansögðu ítrekar embættið enn einu sinni að starfsmenn þess höfðu aldrei samskipti við Mark Kennedy (Stone), hvorki formleg eða óformleg og að Mark Kennedy (Stone) er ekki sá aðili sem er á umræddri mynd.