29 September 2015 13:02

Mikill viðbúnaður var í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina þegar tilkynning barst um íbúa sem var að skjóta af haglabyssu fyrir utan hús sitt. Í ljós kom að allt var í stakasta lagi með byssumanninn og byssuleyfi hans. Raunin var sú að maðurinn, sem er margreyndur veiðimaður, var nýkominn úr gæsaveiðiferð og hafði aflað vel. Gæsirnar, auk stangveiðiafla, hafði hann hengt á staura við heimili sitt. Bar þá að hrafn sem greinilega taldi réttmætt að hann fengi sinn skerf af aflanum, svo aðgangsharður var hann. Maðurinn tók til bragðs að skjóta upp í loftið til að hrekja varginn á brott.

En með þeirri varnaraðgerð gerðist hann brotlegur við vopnalög og var hagabyssa hans því haldlögð, auk þess sem lögregla gerði skýrslu um málið, sem bíður nú afgreiðslu.