2 Október 2017 22:42

Í málaskrá lögreglu eru skráð 76 verkefni þessa daga. Flest þeirra snúa að aðstoð við borgarana í hinum ýmsu málum. Það er auðvitað fréttnæmt að regni hefur nú slotað að mestu hér eystra og aflýsti af því tilefni Ríkislögreglustjóri að höfði samráði við Lögreglustjórann á Austurlandi óvissustigi sem sett var á þann 28. september síðastliðinn. Áfram er þó vel fylgst með þeim stöðum sem hætta getur verið á skriðuföllum enda jarðvegur gegnsósa af vatni eftir fádæmalausar rigningar undanfarna daga.

Eitthvað var um grjóthrun á vegi og skriðuföll í umdæminu. Stærsta skriðan var án efa aurskriðan í Hamarsfirði sem féll þar á fimmtudaginn með þeim afleiðingum að eitthvað af sauðfé varð undir og drapst í forinni. Enn er ekki er vitað nákvæmlega hvað margt sauðfé varð undir og því tjón ábúenda á Hamarseli ekki vitað þegar þetta er ritað.

Nokkuð var um að lögreglumenn þyrftu að skipta sér af skemmtanahaldi fólks síðastliðna helgi eftir að skemmtistöðum lokaði. Í þeim tilfellum varði gleðin heldur dátt og truflaði næturró nágranna. Ekki kom þó til vandræða vegna afskipta lögreglu og tóku gleðigjafar vel í ábendingar lögreglu að nú væri nóg komið og tími væri kominn til að slíta samkomunni.

Þrjú umferðaróhöpp urðu í umdæminu þessa daga, í tveimur þeirra urðu einhver slys á fólki en þó ekki alvarleg. Í öðru umferðarslysinu hafði ökumaður ekki öðlast ökuréttindi en með ökumanni í för var farþegi sem hafði falið ökumanni stjórn bifreiðarinnar með þessum afleiðingum, sá má búast við sekt fyrir athæfið. Í hinu umferðarslysinu er ökumaður grunaður um að hafa verið ölvaður við aksturinn.

Aðeins fimm ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur og trúlega má rekja það til slælegra skilyrða til aksturs auk þess sem að enginn erlendur ferðamaður var stöðvaður fyrir hraðakstur. Það er í samræmi við fækkun ferðamanna en eins og fram hefur komið hjá aðilum í ferðaþjónustu hefur erlendum ferðamönnum hér eystra snarfækkað eftir lokun hringvegarins vestan Hafnar við Steinavötn.