2 Ágúst 2013 12:00
Í gær (1. ágúst) voru 7 ökumenn á leið til Ísafjarðar kærðir fyrir of hraðan akstur. Flestir þeirra voru í Ísafjarðardjúpi. Sá sem hraðast ók var mældur á 128 km. hraða. Sá má búast við sekt sem hljóðar upp á 70.000.- kr.
Þá var einn farþegi sem kom með áætlunarvél til Ísafjarðar tekinn með 2 gr. af kannabisefnum. Fíkniefnahundurinn Clarrissa aðstoðaði lögreglumenn í því tilviki.
Einn aðili var vistaður í fangageymslu á Ísafirði í nótt sökum ölvunar og óláta.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka um á negldum hjólbörðum og þrír ökumenn voru kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á Ísafirði.
Lögreglan býst við töluverðri umferð til Ísafjarðar í tengslum við Mýrarboltamót sem þar verður haldið um verslunarmannahelgina. Ökumenn eru hvattir til að stilla hraða í hóf og vera vel upplagðir við aksturinn. Lögreglan mun auka umferðareftirlit alla helgina og ekki aðeins á Ísafirði og nágrenni heldur Vestfjörðum öllum. Þá hefur lögreglunni á Vestfjörðum borist liðsauki bæði í formi lögreglumanna úr öðrum lögregluliðum og eins með fíkniefnaleitarhundi sem verður lögreglumönnum á Vestfjörðum til aðstoðar. Rétt er að minna á að lögreglan á Vestfjörðum hefur ekkert umburðarlyndi gagnvart fíkniefnum.
Veður er með besta móti á Vestfjörðum.