11 Nóvember 2010 12:00

Innbrotum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað um 29% frá árinu 2009 og fjöldi þeirra er nú svipaður og 2008 en mesta fækkunin í ár varð í janúar og september. Frá ársbyrjun til októberloka fækkaði innbrotum hlutfallslega mest í stofnanir og verslanir í samanburði við sama tímabil í fyrra. Á umræddum tíma fækkaði innbrotum á heimili um fjórðung, eða 26%, og enn meira þegar um ökutæki var að ræða, eða 34%. Fækkun innbrota er mismikil eftir hverfum eða svæðum.

Þess má geta að tilkynningar um innbrot berast lögreglu helst á morgana og klukkan 18 síðdegis. Innbrot á heimili eru einkum tilkynnt um miðnætti, klukkan 8 á morgnana, í hádeginu eða frá kl. 16-18 síðdegis. Innbrot í fyrirtæki eru hinsvegar oftast tilkynnt klukkan 18 en upplýsingar um innbrot í bíla berast gjarnan klukkan 8 á morgnana og svo aftur síðdegis og á kvöldin.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is