8 Desember 2015 15:26

Um miðjan dag föstudaginn 4. desember barst lögreglu hjálparbeiðni, í gegnum Neyðarlínuna 112 vegna mann sem var að smala kindum í Súðavíkurhlíð.  Maðurinn hafði lent í sjálfheldu vegna mikils snævar og klaka.  Björgunarsveitir voru að búa sig til þess að fara til að aðstoða manninn þegar hann tilkynnti að honum væri óhætt og komst hann að sjálfsdáðum á öruggan stað.

Kl.21:34 laugardaginn 5. desember lýsti Veðurstofa Íslands yfir óvissustigi á norðanverðum Vestfjörðum.  Ekki kom þó til þess að hús væru rýmd.  Hins vegar var ákveðið að loka veginum um milli Súðavíkur og Ísafjarðar, tímabundið, af öryggisástæðum.

Síðar var lýst yfir óvissustigi á sunnanverðum Vestfjörðum.  Ekki kom þó heldur til þess að hús yrðu rýmd á því svæði.

Fíkniefni fundust á einum flugfarþeganna sem kom með áætlunarvél til Ísafjarðar, í vikunni sem leið.  Fíkniefnaleitarhundur lögreglunnar á Vestfjörðum, Tindur, var lögreglumönnum til aðstoðar við þá leit.  Þessi umræddi aðili hefur áður komið við sögu vegna fíkniefnamála sem og annarra brota.

Höfðu voru afskipti af einum ökumanni vélsleða sem ekið var um þéttbýli í umdæminu.  Rétt er að minna á að akstur slíkra torfærutækja er bannaður í þéttbýli.  Þurfi ökumenn að fara yfir eða um vegi í þéttbýli er nauðsynlegt að flytja torfærutækin á sérútbúnum kerrum eða bílpalli.

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp á Vestfjörðum í liðinni viku.  Annað þeirra var um hádegisbilið þann 30. nóvember þegar mannlaus bifreið rann af stað og ofan í höfnina við Sundahöfn á Ísafirði.  Svo virðist sem bifreiðin hafi verið skilin eftir í gangi og án þess að vera tekin úr gír eða í handbremsu.  Hitt atvikið gerðist þann 2. desember þegar bifreið var ekið á hús eitt á Ísafirði.  Engin slys urðu en tjón töluvert.