16 Ágúst 2007 12:00

Slökkvilið, lögregla, björgunarsveitir og fleiri viðbragðsaðilar stilla saman strengi sína og hafa talsverðan viðbúnað til að tryggja öryggi fólks á Menningarnótt en þá er að venju búist við að mikill mannfjöldi verði í miðborg Reykjavíkur. Áhersla verður lögð á að umferð gangi eins greiðlega og unnt er en umferðartafir eru þó fyrirsjáanlegar. Fjölda gatna verður lokað. Afar mikilvægt er að neyðarbílar komist ávallt leiðar sinnar.

Aðgerðastjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu annast samræmingu öryggismála og viðbragðsaðilar hafa sameiginlega bækistöð og útkallslið í Ingólfsstræti við Arnarhól. Þar verður meðal annars sjúkraskýli og aðstaða til að annast týnd börn.

Lögregla höfuðborgarsvæðisins hvetur almenning til að sýna lipurð og þolinmæði í umferðinni og fylgja tilmælum lögreglu. Lögreglan vill brýna það sérstaklega fyrir foreldrum að skilja börn sín ekki eftir í miðbænum þegar dagskránni lýkur með flugeldasýningu. Lögreglan mun taka mjög hart á drykkju unglinga og vonast eftir góðri liðveislu foreldra í því.

Sameiginleg neyðaraðstaða og bækistöð í Ingólfsstræti

Aðgerðum í Ingólfsstræti verður stjórnað úr stjórnstöðvarbifreið Flugbjörgunar-sveitarinnar en á staðnum verða sjúkra-, slökkvi- og lögreglubifreiðar. Gönguhópar lögreglu, Rauða krossins og björgunarsveita verða gerðir út þaðan en þeir munu sinna eftirliti og veita aðstoð. Sjúkraskýli verður á staðnum og þar verður einnig aðstaða til að annast týnd börn. Vel merkt körfubifreið Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins verður staðsett þar svo auðvelt verður að sjá hvert á að leita ef eitthvað bjátar á. Í neyðartilvikum ber að hringja í neyðarlínuna, 112, eða snúa sér beint til viðbragðsaðilanna við Arnarhól.

Aukinn viðbúnaður sjúkraflutninga og lækna

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins mun fylgjast grannt með og þegar líður á daginn og kvöldið verður sjúkrabifreiðum fjölgað, ásamt því að mönnuð verður aukaslökkvibifreið. Slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss verður einnig með aukaviðbúnað þegar líður á kvöldið og nóttina, sambærilegt við það skipulag sem er á gamlárskvöldi.

Lögreglan stýrir og greiðir fyrir umferð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun kappkosta að sjá til þess að fólk komist leiðar sinnar úr miðborginni eftir hefðbundna dagskrá. Þó er alveg ljóst að vegfarendur verða að búa sig undir einhverjar umferðartafir. Þau ökutæki sem lagt er þannig að hætta stafi af verða fjarlægð. Íbúar í miðborg Reykjavíkur eru vinsamlega beðnir að takmarka notkun einkabifreiða eins og hægt er.

Umferðarljós á Sæbraut, Hringbraut, Miklubraut og Bústaðavegi verða tekin úr sambandi þegar formlegri dagskrá lýkur. Við umferðarlöggæslu verða um 20 lögreglumenn og munu þeir aðallega sinna umferðarstjórn á áðurnefndum götum. Þá verður vinstri beygja af Bústaðavegi í vesturátt inn á Kringlumýrarbraut til suðurs bönnuð tímabundið eftir að dagskrá lýkur til að liðka fyrir umferð um Bústaðaveg frá miðborginni.

Fjölmörgum götum verður lokað, annars vegar í tengslum við Maraþonið og hins vegar Menningarnótt og stórtónleika á Miklatúni. Umferðardeild lögreglunnar mun sinna eftirliti með lokun gatna í tengslum við áðurnefnda viðburði, samanber meðfylgjandi kort. Ákveðið hefur verið að loka Hverfisgötunni frá kl. 10.00 fyrir allri almennri umferð. Þetta er gert meðal annars með öryggishagsmuni í huga. Ökumenn eru beðnir að virða þetta.

Athvarf fyrir týnd börn – sími 411 11 11

Athvarf fyrir týnd börn verður í sjúkraskýli í Ingólfsstræti við Arnarhól. Reynt verður eftir fremsta megni að leiða saman börn og foreldra þeirra eins fljótt og unnt er ef þau verða viðskila. Félagsráðgjafi og starfsmaður frá ÍTR verða í athvarfinu kl. 16.00 til 01.00. Símanúmer athvarfsins er 411 11 11 og verður þar hægt að fá upplýsingar um börn sem eru í athvarfinu og tilkynna um týnd börn. Foreldrar og aðstandendur eru hvattir til að gæta barna sinna sérstaklega vel í þeim mikla mannfjölda sem getur orðið í miðborginni á Menningarnótt.

Flugeldasýningin kl. 23.00

Flugeldasýningin fer fram á pramma við varðskip Landhelgisgæslunnar úti fyrir Sæbraut. Landhelgisgæslan og lögreglan verða með eftirlit á bátum á svæðinu um kvöldið en vegna flugeldasýningarinnar bætast við bátar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðsisins og björgunarsveitum til gæslu. Auk þess verða björgunarsveitarmenn við gæslu á ströndinni en fólk er beðið að fara ekki upp á varnargarðinn.

Eigendur gæludýra eru beðnir að huga að dýrum sínum vegna flugeldasýningarinnar og eru eigendur hesta sérstaklega hvattir til að gera viðeigandi ráðstafanir.

Nánari upplýsingar:

Birgir Finnsson, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í síma 894 5422.

Um almenna löggæslu: Árni Þór Sigmundsson í síma 444 1000.

Um umferðarmál: Árni Friðleifsson í síma 444 1000.