28 Desember 2022 12:59
  • Hækkað viðbúnaðarstig hefur verið hjá lögreglu frá 13.12.2022, var hækkað úr A í B.
  • Kvarði vegna ógnarmats hryðjuverka samræmdur við Norðurlönd. Úr fjögurra stiga kvarða í fimm stiga.
  • Mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að hættustig vegna hryðjuverka sé nú á þriðja stigi á nýjum kvarða.

 

Viðbúnaðarstig lögreglu

Í kjölfar úrskurðar Landsréttar frá 13.12.2022 um afléttingu gæsluvarðhalds yfir ákærðu vegna ætlaðs skipulags á hryðjuverkum var tekin ákvörðun um að breyta viðbúnaðarstigi lögreglu. Um tímabundna ákvörðun er að ræða og verður viðbúnaðarstig metið reglulega.

Viðbúnaðarstig A er hefðbundinn viðbúnaður skv. verklagsreglum ríkislögreglustjóra frá 2015 um viðbúnaðarstig lögreglu. Tekin hefur verið ákvörðun um að hækka viðbúnaðarstig lögreglu upp í viðbúnaðarstig B sem felur í sér aukinn viðbúnað vegna öryggisógnar. Viðbúnaðarstigin eru fimm, frá A til E.

Samkvæmt verklagi  á viðbúnaðarstigi B hafa sérsveit ríkislögreglustjóra, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, greiningardeild og fjarskiptamiðstöð lögreglu aukið viðbragðsgetu ef til voðaverka kæmi. Þetta felur í sér einföldun á ýmsum verkferlum, nánari samvinnu, aukna mönnun og hraðari viðbragðsgetu.

 

 

Breyting á hættustigum ríkislögreglustjóra vegna hryðjuverka

Gerðar hafa verið breytingar á hættustigum vegna hryðjuverka en breytingarnar tengjast ofangreindum viðbúnaði ekki beint. Breytingin miðar að því að samræma notkun hættustiga á Íslandi við nágrannalönd okkar. Á Íslandi hefur hingað til verið notast við fjögurra stiga kvarða en frá og með 13. desember 2022 hefur verið tekinn upp nýr fimm stiga kvarði hættustiga þar sem lagðar eru sömu forsendur til grundvallar mats og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

 

Mat á hættustigi skv. nýjum kvarða hættustiga vegna hryðjuverka

Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur hættustig vegna hryðjuverka. Það er mat hennar að hættustig á Íslandi sé á þriðja stigi; Aukin ógn, þ.e. til staðar er ásetningur og/eða geta og hugsanleg skipulagning hryðjuverka. Fyrir 13.desember var viðbúnaðarstig í fyrsta stigi af fjórum.

 

Líkt og með ákvörðun ríkislögreglustjóra um viðbúnaðarstig, þá er ákvörðun um hættustig vegna hryðjuverka á Íslandi byggð á fyrirliggjandi upplýsingum. Þær upplýsingar eru stöðugt metnar og yfirfarnar.

Nánari upplýsingar um málið,
Gunnar H. Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra.
gunnarhg@logreglan.is