13 Apríl 2012 12:00

Skýrsla um niðurstöður könnunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á viðhorfum til lögreglu, ótta við afbrot og reynslu af þeim hefur nú litið dagsins ljós. Könnunin var lögð fyrir sumarið 2011 en þetta er í fjórða sinn sem hún er framkvæmd. Svarhlutfall á höfuðborgarsvæðinu var 50,5 prósent. Könnunin var lögð fyrir þátttakendur í gegnum síma og internetið. Þetta er í fyrsta skiptið sem gagna er aflað með tvennskonar hætti og vert er að hafa það í huga við lestur niðurstaðna, þar sem fyrri kannanir hafa eingöngu verið framkvæmdar með spurningalista gegnum síma.

Tæp 85 prósent þátttakenda töldu lögreglu almennt skila góðu starfi í sínu hverfi við að stemma stigu við afbrotum. Fækkar þeim um sex prósentustig frá síðustu könnun. 

Þeim sem töldu lögregluna aðgengilega í sínu hverfi fækkar um sjö prósent. Nú eru tæp 63 prósent þátttakenda á þeirri skoðun.

Þátttakendur voru spurðir að því hvaða afbrot þeir teldu mesta vandamálið í sínu hverfi. Tæp 44 prósent nefndu innbrot sem er umtalsvert lægra hlutfall en í síðustu könnun. Tæplega 20 prósent nefndu umferðarlagabrot og fjölgar þeim frá 2010. Tæp 14 prósent nefndu eignaspjöll og fleiri nefndu fíkniefnaneyslu sem mesta vandamálið í sínu hverfi samanborið við árið 2010.

Mikill meirihluti þátttakenda, eða yfir 88 prósent, sagðist mjög eða frekar öruggur einn á gangi að næturlagi í sínu hverfi. Ívið færri töldu sig þó örugga nú samanborið við síðustu könnun.

Um 60 prósent þátttakenda sögðust mjög eða frekar óöruggir væru þeir einir á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir myrkur og er hlutfallið ögn lægra en niðurstöður sýndu fyrir árið 2010.

Rúm 48 prósent þátttakenda sögðust aldrei hafa verið í þannig aðstæðum að þeir hefðu talið líkur á að þeir yrðu fyrir afbroti árið 2010 og fækkar þeim milli ára. Af þeim 52 prósentum sem sögðust einhvern tímann hafa verið í þannig aðstæðum nefndu rúmt 51 prósent að þeir hafi óttast mest að verða fyrir innbroti en það er fækkun frá síðustu könnun.

Af þeim sem höfðu orðið fyrir afbroti árið 2010 nefndu flestir eignaspjöll eða tæp 19 prósent. Rúm 12 prósent þátttakenda höfðu orðið fyrir innbroti/þjófnaði og tæp fjögur prósent höfðu orðið fyrir ofbeldisbroti.

Rúmlega 59 prósent þeirra sem höfðu orðið fyrir innbroti eða þjófnaði sögðust hafa tilkynnt það til lögreglu en tæplega 36 prósent þeirra sem urðu fyrir eignaskemmdum. Af þeim sem urðu fyrir ofbeldisbroti sögðust 36 prósent hafa tilkynnt það til lögreglu og er það lægsta hlutfall slíkra tilkynninga sem mælst hefur frá upphafi.

Í heildina hafði tæpur þriðjungur þátttakenda samskipti við lögregluna af einhverjum ástæðum árið 2010.

Skýrsluna má nálgast hér.