12 Janúar 2005 12:00

Nýlega vann rannsóknafyrirtækið Hugheimar að rannsókn um viðhorf ungs fólks til forvarnastarfs lögreglu fyrir embætti ríkislögreglustjóra. Jóhanna Rósa Arnardóttir og Elísabet Karlsdóttir eru höfundar rannsóknarinnar. Fjallað er um viðhorf ungs fólks til forvarnastarfs lögreglu, viðhorf þeirra til lögreglu almennt og aðgengi þeirra að fíkniefnum. Rannsókn á forvarnastarfi lögreglu er hluti af stærri rannsókn sem ber heitið Hugmyndir ungs fólks um forvarnir. Vorið 2005  verða birtar niðurstöður rannsóknarinnar í heild.

Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á símakönnun sem náði til tilviljunarúrtaks 1.200 ungmenna á aldrinum 18 til 20 ára á landinu öllu. Rannsóknin var framkvæmd í október 2004. Svarhlutfall er 68,5%, en nettósvörun, það er þegar frá upphaflegu úrtaki eru dregnir þeir sem voru búsettir erlendis eða voru veikir, er 73,3%.

Helstu niðurstöður

Mikill meirihluti ungs fólks hefur fengið fræðslu hjá lögreglu

Um 87% ungs fólks á aldrinum 18-20 ára á öllu landinu hafa fengið fræðslu hjá lögreglu en um 13% ekki. Flestir þeirra sem ekki fengu fræðslu sögðu að hún hefði ekki verið í boði en færri að þau hafi ekki mætt vegna áhugaleysis, veikinda eða að þau hefðu verið í fríi.

Flestir muna eftir fræðslu um umferðarreglur og fíkniefni

Flestir muna eftir að hafa fengið fræðslu um umferðarreglurnar, hlutfallið er hæst á Suðurnesjum (83%) en lægst á Austurlandi (57%). Meðal þeirra sem hafa fengið fræðslu hjá lögreglu sagði ríflega helmingur að hún hafi fjallað um skaðsemi fíkniefna. Fátíðara er að þau muni eftir fræðslu um sakaskrána, fórnarlömb eða afleiðingar afbrota og refsingar.

Almenn ánægja er með fræðsluna

Flestir eru ánægðir með þá fræðslu sem þeir hafa fengið hjá lögreglu. Um 77% eru mjög eða frekar ánægðir en um 9% mjög eða frekar óánægðir. Á heildina litið eru konur ánægðari með fræðsluna en karlar.

Viðhorf til lögreglu er jákvætt

Um 23% svarenda sögðust vera mjög jákvæðir gagnvart lögreglu, um 42% frekar jákvæðir, um 18% voru hvorki jákvæðir né neikvæðir, um 12% sögðust vera frekar neikvæðir og um 6% mjög neikvæðir gagnvart lögreglu. Konur hafa jákvæðara viðhorf gagnvart lögreglu en karlar.

Forvarnafræðsla hvetur til jákvæðara viðhorfs til lögreglu

Niðurstöður benda til þess að með því að fræða börn strax á unga aldri um lögreglu er verið að byggja upp jákvætt viðhorf til lögreglunnar almennt. Þannig má sjá að þeir sem hafa jákvætt viðhorf til þeirra fræðslu sem þeir hafa fengið hjá lögreglu eru einnig jákvæðari gagnvart lögreglunni. Þeir sem hafa tekið þátt í forvarnafræðslu lögreglu eru einnig jákvæðari gagnvart lögreglunni en þeir sem hafa ekki tekið þátt í forvarnafræðslunni. 

  

Fíkniefnaneysla og viðhorf til lögreglu

Tengsl eru milli fíkniefnaneyslu og viðhorfs svarenda til lögreglu. Þeir sem hafa neytt fíkniefna hafa neikvæðara viðhorf til lögreglu en þeir sem ekki hafa neytt fíkniefna.

Algengast er að fíkniefni séu boðin í partíum, á skemmtistöðum eða í miðbænum

Um 13% svarenda hafa neytt fíkniefna á síðastliðnum 12 mánuðum. Tengsl eru milli fíkniefnaneyslu og viðhorfs svarenda til lögreglu. Þeir sem hafa neytt fíkniefna hafa neikvæðara viðhorf til lögreglu en þeir sem ekki hafa neytt fíkniefna. Partí (57%), skemmtistaðir (31%) og miðbærinn á því svæði sem viðkomandi býr (29%) eru þeir staðir þar sem ungu fólki er einna helst boðin fíkniefni. Um 9% svarenda hafa verið boðin fíkniefni í grunnskólum, framhaldsskólum eða háskólum.

Meirihluta ungs fólks hafa verið boðin fíkniefni

Um 62% ungs fólks á aldrinum 18-20 ára hafa verið boðin fíkniefni samanborið við 38% sem hafa aldrei verið boðin fíkniefni. Um 72% karla hafa verið boðin fíkniefni en um 52% kvenna.

Skólaganga hefur forvarnagildi

Ungu fólki sem er í skóla er síður boðin fíkniefni en ungu fólki sem ekki er í skóla. Þó má sjá að meiri líkur eru á því að þeim séu boðin fíkniefni erlendis en ungu fólki sem er að vinna. Þannig virðist skólagangan sem slík hafa forvarnagildi og draga úr líkunum á því að ungu fólki séu boðin fíkniefni hér á landi.

Þegar aðgengi svarenda að fíkniefnum er skoðað meðal þeirra sem ekki hafa neytt fíkniefna á síðastliðnum 12 mánuðum sést að um 63% karla sem hafa lokið framhaldsskóla eða voru í skóla hafa verið boðin fíkniefni, þetta hlutfall er 42% meðal kvenna. Um 73% karla sem hættu námi í framhaldsskóla eða hafa ekki farið í framhaldsskóla hafa verið boðin fíkniefni, þetta hlutfall er 76% meðal kvenna.

Frítíminn skiptir máli

Hlutfallslega fleiri svarendur sem stunda símenntun (40%) sögðust aldrei hafa verið boðin fíkniefni í samanburði við þá sem ekki stunda símenntun (21%). Einnig má sjá að þeir sem sóttu símenntun á síðastliðnum 12 mánuðum var síður boðin fíkniefni á skemmtistað (30%) en svarendum sem ekki höfðu stundað símenntun (41%). Það vekur von um að með því að bjóða ungu fólki að takast á við áhugaverð verkefni í frítíma sínum þá geti það jafnframt dregið úr líkunum á því að þeim séu boðin fíkniefni.

Skýrslan í heild sinni >>