26 Febrúar 2008 12:00

Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við Háskóla Íslands hefur lokið rannsókn á viðhorfi ungs fólks til forvarnastarfs lögreglu og aðgengi að fíkniefnum sem unnin var fyrir ríkislögreglustjóra. Höfundur er Jóhanna Rósa Arnardóttir, forstöðumaður RBF. Rannsóknin byggir á svörum 811 ungmenna í lok árs 2007, en tekið var 1200 manna úrtak úr þjóðskrá meðal fólks á aldrinum 18-20 ára og er svarhlutfall 68%.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að 76% svarenda höfðu fengið einhverja fræðslu hjá lögreglu og meirihluti þeirra sem höfðu fengið fræðslu (74%) var mjög eða frekar ánægður með hana. Algengast var að þeir sem höfðu fengið einhvers konar fræðslu hefðu fengið fræðslu um umferðarreglurnar.

Um 70% sögðust vera mjög eða frekar jákvæðir gagnvart lögreglunni sem er hlutfallslega fleiri ungmenni samanborið við árið 2004. Þá virðist skv. rannsókninni að forvarnafræðsla lögreglu auki líkur á jákvæðu viðhorfi til lögreglu, sem er í samræmi við fyrri rannsókn.

 Rannsóknina í heild sinni má nálgast hér en einnig á vef ríkislögreglustjóra www.rls.is/tolfraedi.