25 September 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vann ConnectedCOPS AWARDS verðlaunin, sem afhent voru í Omaha í Nebraska í Bandaríkjunum í dag. Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti í fyrra, en þá keppti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu einnig til úrslita. Það er LAwS Communications sem stendur fyrir þessum viðurkenningum, en keppt er í nokkrum flokkum og fékk Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verðlaunin í flokknum  Excellence at a Large Agency. Bæði einstakir lögreglumenn sem og embætti geta hlotið útnefningar til verðlaunanna, en þau eru veitt þeim sem skara fram úr þegar kemur að notkun samfélagsmiðla. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stofnaði fésbókarsíðu í árslok 2010 og fékk hún strax mjög góðar viðtökur. Tæplega 44 þúsund manns eru nú vinir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook, en með notkun samfélagsmiðla er hægt að efla enn frekar upplýsingamiðlun til almennings. Twitter, Instagram, Flickr og YouTube eru líka miðlar sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notar í þessum sama tilgangi.

Meðfylgjandi myndir eru frá verðlaunaafhendingunni í dag. Á einni þeirra er Þórir Ingvarsson rannsóknarlögreglumaður ásamt Lauri Stevens, forstjóra Connected Cops samtakanna, en Þórir tók við viðurkenningunni fyrir hönd lögreglunnar. Á annarri mynd má sjá Stefán Eiríksson lögreglustjóra, en hann ávarpaði gesti hátíðarinnar frá skrifstofu sinni í Reykjavík. Sjá nánar um ConnectedCOPS AWARDS með því að smella hér.