5 Nóvember 2010 12:00

Embætti ríkislögreglustjóra hefur orðið vart við að netföngum fólks hjá þjónustuaðilum eins og Hotmail,  G-mail o.fl.  er stolið og síðan er sendur út fjöldapóstur á öll netföng í netfangaskrá viðkomandi. 

Netföngum er stolið með þeim hætti að þolandinn fær tölvupóst sem virðist vera frá þjónustuaðilanum þar sem spurt er hvort hann ætli að nota netfangið sitt áfram. Ef svo, er hann beðinn um að staðfesta það með því að senda aðgangsorð og lykilorð til baka.    Með þessar upplýsingar undir höndum getur sendandinn skráð sig inn á póstþjónustuna eins og um eigandann væri að ræða og breyti hann um lykilorð, er hann búinn að yfirtaka netfang  viðkomandi með öllu sem því tilheyrir, innkominn og útsendan póst og tengiliðaskrá.

Síðan er sendur svikapóstur í nafni réttmæts eiganda pósthólfsins til allra þeirra sem eru í tengiliðaskránni og gengur út á að sendandinn sé staddur erlendis,  hafi týnt veski sínu með peningum, skilríkjum og greiðslukortum.  Hann biður því um að láta senda sér reiðufé gegnum miðlara eins og Western Union.  Svikarinn bíður svo eftir reiðufjársendingu.

Það er því rétt að árétta það enn og aftur að fólk varðveiti öll lykilorð sín tryggilega og sendi þau aldrei í tölvupósti til einhverra aðila sem óska eftir þeim.