3 Nóvember 2006 12:00

Rétt þykir að vara sérstaklega við atvinnutilboðum sem bjóðast víða í Evrópu um þessar mundir en eru ekkert annað en fjársvik þegar öllu er á botninn hvolft. 

Í stuttu máli sagt þá er beitt þeirri aðferð að boðin er atvinna við markaðsverkefni og sölumennsku á Internetinu og er ráðgert að starfsemin fari fram þar.  Í atvinnutilboðinu eru notuð nöfn fyrirtækja sem þekkt eru víða um heim en verkefnið sjálft er ekki skilgreint frekar.  Þeir sem setja sig í samband við þá sem bjóða þessa vinnu fá að vita að þeir geti vænst fastrar þóknunar, eða frá 15 evrum á tímann og allt að 2000 evrum á viku, auk 5 – 8 % þóknunar af sölu.

Þegar atvinnutilboðinu hefur verið tekið er beðið um að tilgreina bankareikning svo hægt sé að opna fyrir viðskiptin. Í kjölfarið og án frekari skýringar er lagt inn á bankareikninginn nokkur fjárhæð sem numið getur tugumþúsunda króna.  Er viðtakandinn beðinn um að senda hana öðrum, oftast tveimur eða fleirum sem nafngreindir eru, að frádreginni 5% þóknun.  Aðeins eru gefnar lágmarksupplýsingar um viðtakanda og eru peningarnir sendir með órekjanlegum bankamillifærslum. 

Skömmu eftir þessi viðskipti er haft samband frá bankanum sem sendi peningana þeim sem taldi sig vera að taka að sér markaðs- og sölustörf og er hann krafinn endurgreiðslu fjárhæðar sem lögð var inn á reikninginn.  Hafi komið í ljós að peningarnir voru afrakstur auðgunarbrots. 

Þessi aðferð, sem gerir ráð fyrir að nota saklaust fólk til þess að koma illafengnu fé undan, getur haft í för með sér óþægindi og tjón vegna krafna frá banka sem millifærði peningana á bankareikninginn.  Ef fólk tekur þátt í þessum viðskiptum þegar því má vera ljóst að þarna liggur sviksemi að baki kann það að baka sér refsiábyrgð fyrir liðveislu í auðgunarbroti og / eða með því að þvætta peninga.  Hér á landi eru tvö nýleg dæmi um atvik af þessu tagi.    

Nánari upplýsingar gefur Jón H. Snorrason saksóknari í síma 899 7822