1 Ágúst 2007 12:00

Lögreglan á Hvolsvelli hefur, í samstarfi við Forvarnahús Sjóvá, gefið út einblöðung þar sem fram kemur á einfaldan hátt viðvörun til útlendinga hver hámarkshraði er á Íslenskum vegum. Við hönnun einblöðungsins var haft að leiðarljósi að hann yrði sem einfaldastur og þægilegastur í lestri og þarna yrði um að ræða skilaboð frá lögreglunni.

Þetta verkefni er liður í stærra verkefni sem embætti ríkislögreglustjóra fór af stað með síðast liðinn vetur undir nafninu Verkefnamiðuð löggæsla. Lögregluembættum landsins var boðið að taka þátt í þessu verkefni og velja sér viðfangsefni. Lögreglan á Hvolsvelli ákvað að taka fyrir hraðakstur útlendinga í umdæminu, sem nær frá Þjórsá í vestri að Gígjukvísl í austri.

Fundað var með Vegagerðinni, Umferðarstofu og fulltrúum þriggja stærstu bílaleiganna í landinu. Tilgangur þessara funda var að finna lausn á vandanum þar sem fjöldi erlendra ferðamanna er sífellt að aukast í landinu og hraðakstur þeirra eykst í takt við það. Hugmynd af þessum einblöðungu kviknaði á fundi með fulltrúum bílaleiganna.

Frá 15. maí – 30. júlí s.l. voru um 740 ökumenn stöðvaðir í umdæminu fyrir hraðakstur og voru um 44% þeirra af erlendu bergi brotnir, en ef skoðað var sama tímabil frá því í fyrra var hlutfall erlendra ökumanna um 33%, þeirra sem stöðvaðir voru vegna hraðaksturs. Þarna er um hlutfallslega aukningu að ræða, sem lögreglan lítur alvarlegum augum á.

Bundnar eru vonir til þess að einblöðungur þessi verði til þess fallinn að fækka umferðarlagabrotum og auka umferðaröryggi á öllu landinu.

Sveinn K. Rúnarsson,yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli kynnti einblöðungnn á blaðamannafundi í Forvarnahúsi Sjóvá í gær.

Samhliða kynningunni á bæklingnum afhjúpuðu, Kristján L. Möller, samgönguráðherra, Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri og Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá, nýtt skilti á ensku sem sett verður á helstu vegi þar sem malbik endar, til viðvörunar fyrir erlenda ökumenn. Á ári hverju verða mörg slys á malarvegum og sérstaklega þar sem malbik endar og malarvegur tekur við.

Samgönguráðherra gerði ljóst að vítaverður akstur yrði ekki liðinn á vegum landsins þar sem gnægð dæma um slíkan akstur hefði leitt af sér dauða og örkuml, því yrði hart tekið á slíkum akstri í þeim tilgangi að koma í veg fyrir alvarleg slys.

Meðfylgjandi eru myndir af einblöðungnum og skiltinu