5 Janúar 2024 16:41

Ný aðgerðastjórnstöð almannavarna á Austurlandi var vígð í dag, staðsett í húsi björgunarsveitarinnar Héraðs á Egilsstöðum.

Það er mat almannavarnanefndar á Austurlandi að með opnun stjórnstöðvarinnar hafi stórt skref verið stigið í almannavarnamálum í fjórðungnum. Önnur vinna í almannavörnum er í gangi og lýtur meðal annars að endurskoðun rýmingakorta og boðunar- og viðbragðsáætlana. Þá er stefnt að úttekt á búnaðarmálum í umdæminu, áætlun um endurnýjun og kaup, auk þess sem unnið er að aukinni þjálfun viðbragðsaðila.

Opnun aðgerðastjórnstöðvar er því fyrsta skref af nokkrum sem stefnt er að því að verði stigin á næstu misserum í almannavarnamálum á Austurlandi.