17 Október 2016 15:36
Lögreglan hafði afskipti af alls 9 ökutækjum sem ekki höfðu verið færð til lögbundinnar skoðunar.
Þá hafði lögreglan afskipti af hjálmlausum ökumanni bifhjóls. Sá mun fá sekt fyrir brotið.
Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni, á Ísafirði, réttindalaus. Um var að ræða ítrekaðan réttindaleysisakstur þessa aðila. Sektarfjárhæð hækkar við hvern slíkan akstur.
28 ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Sá sem hraðast ók mældist á 139 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu og Ísafjarðardjúpi.
Um miðjan dag þann 14. október hafði lögreglan afskipti af ökumanni fólksbifreiðar á Patreksfirði. Sá reyndist vera undir áhrifum áfengis.
Seint að kveldi 14. október var tilkynnt um bílveltu á Kambsnesi, milli Álftafjarðar og Seyðisfjarðar. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, reyndist ekki alvarlega slasaður. Hins vegar er hann grunaður um ölvun við akstur. Bifreiðin var óökufær eftir óhappið.
Að kveldi 14. október hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem ók Súðavíkurhlíð. Í bifreið ökumannsins fannst stórt bitvopn. Hnífur þessi reyndist ekki uppfylla skilyrði vopnalaga í fórum þessa aðila, en í lögunum segir að um ólöglegt vopn sé að ræða ef hnífsblað er lengra en 12 sm, enda sé það ekki ætlað til notkunar við heimilishald eða atvinnu. Lögreglan lagði hald á vopnið og má eigandinn búast við viðeigandi sekt fyrir að hafa það í fórum sínum.
Rétt er að minna ökumenn á að fara yfir ljósabúnað bifreiða sinna og einnig þá sem eru gangandi að vera með endurskinsmerki á yfirhöfnum sínum, enda er farið að skyggja nokkuð.