20 Janúar 2016 14:30

Um hádegisbilið þann 16. janúar var lögreglu tilkynnt um að innbrot hafi verið framið í íþróttahúsið á Torfnesi. Einhver eða einhverjir höfðu brotist inn í húsið, spennt upp opnanlegt gluggafag, og farið þar inn í húsið.  Engar skemmdir voru unnar í þessu innbroti utan stormjárnsins sem spennt var upp.  Málið er ekki upplýst og óskar lögreglan eftir upplýsingum frá þeim sem kunna að hafa upplýsingar um hver eða hverjir hafi verið þarna að verki.

Um kl.20:00 þann 17. janúar urðu eigendur húsnæði skipasmíðastöðvarinnar á Suðurtanga á Ísafirði varir við mannaferðir inni í húsnæðinu, eitthvað sem ekki átti að vera. Nokkrum dögum áður höfðu eigendurnir orðið varir við að einhver hafði brotið sér leið inn í húsnæðið.  Þegar lögreglumenn fóru á staðinn komu þeir að tveimur ungmennum sem höfðu brotist inn í húsnæðið og voru þar inni.  Ungmennin hlupu af vettvangi en lögreglumenn hlupu þau uppi og handsömuðu.  Þau voru handtekin og færð á lögreglustöðina.  Bæði ungmennin eru sakhæf en yngri en 18 ára og var haft samband við forráðamenn og barnaverndaryfirvöldum kynnt um afskiptin eins og venja er.  Tjón sem hlaust af þessu er óverulegt.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu í vikunni. Þetta var á Ísafirði, Djúpvegi og á Barðastrandavegi.

Skráningarnúmer voru tekin af fjórum ökutækjum í vikunni þar sem tryggingar höfðu fallið úr gildi vegna vangoldinna iðgjalda.

Tveir ökumenn voru kærðir í vikunni fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum gatna á Ísafirði.

Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að tala í farsíma á ferð, án þess að nota handfrjálsan búnað.

Í vikunni var ökumaður stöðvaður, við hefðbundið eftirlit á Ísafirði. Við athugun lögreglunnar kom í ljós að í bifreiðinni var skotvopn sem hvorki ökumaður eða farþegi hafði ekki heimild til að eiga eða handleika.  Skotvopnið var skráð á annan aðila.  Vopnið var haldlagt og er málið til rannsóknar.