19 Desember 2016 11:27
Einn maður gisti fangaklefa á Ísafirði aðfaranótt sunnudagsins 18. desember. Tilkynnt var um hann liggjandi ölvunarsvefni utandyra í miðbæ Ísafjarðar. Maðurinn gat ekki gert grein fyrir sér og var talið öryggast að leyfa honum að sofa úr sér vímuna í fangaklefa undir eftirliti lögreglu.
Lögreglan hafði afskipti af ökumanni fólksbifreiðar sem var með ólöglegar perur í framljósum. Viðkomandi var gert að skipta um perur. Um var að ræða litaðar perur sem óheimilt er að nota við þessar aðstæður.
Síðdegis þann 14. desember sl. var lögreglu tilkynnt um að rúða í hesthúsum við Víðidalsá í Strandabyggð hafi verið brotin. Svo virðist sem grjót hafi verið notað til að brjóta rúðuna. Lögreglan óskar eftir upplýsingum frá þeim sem kunna að hafa vitneskju um atvikið. Sími lögreglunnar á Vestfjörðum er 444 0400.
Aðfaranótt 18. desember var gestur á vínveitingahúsi á Ísafirði fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði. Sá hafði fallið innandyra á veitingastaðnum og hlotið áverka í andliti.
Fimm ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þeirra voru í akstri í Strandasýslu en einnig í Ísafjarðardjúpi.
Ástæða er til að minna ökumenn á að ekki má nota þokuljós í þéttbýli. En lögreglan áminnti nokkra ökumenn fyrir slíkt í liðinni viku. Þá er rétt að minna á mikilvægi þess að ljósabúnaður sé í lagi, s.s. að ljós logi aðeins öðru megin að framan eða aftan. Í svartasta skammdeginu getur slíkt valdið hættu fyrir aðra ökumenn.