22 Ágúst 2017 14:10

Í umdæmi lögreglunnar voru 28 ökumenn sektaðir fyrir of hraðan akstur og sá sem hraðast ók var á 134 km/klst. þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Flestir hinna kærðu voru útlendingar á ferðalagi um landið. Ekið var á búfé í 9 skipti en óvenju mikið hefur verið um slík umferðaróhöpp undanfarna mánuði. Nokkrir ökumenn voru staðnir verki er þeir virtu ekki stöðvunarskyldu.

Ökumaður var handtekinn grunaður um háskaakstur, ölvun við akstur og vopnalagabrot á Seyðisfirði. Hinn grunaði endaði för sína með því að aka á ljósastaur og hús. Ökumaðurinn er óslasaður. Annar ökumaður var handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur á Reyðarfirði.

Þá varð bílvelta á hringvegi 1 um Breiðdal við Þorgrímsstaði, þar sem erlendir ferðamenn frá Kína voru á ferð. Ökumaðurinn taldi að refur hafi hlaupið út á veginn og reyndi að forðast að aka á dýrið en missti stjórn á bifreiðinni með þessum afleiðingum. Það má telja hið mesta mildi að ekki urðu slys á ökumanni eða farþegum bifreiðarinnar.

Lögreglan á Austurlandi hefur einnig verið að sinna hálendiseftirliti. Markmiðið með eftirliti lögreglu á hálendinu norðan Vatnajökuls er að sporna við utanvegaakstri, hafa eftirlit með því að reglum sem lúta að farþegaflutningum sé fylgt, aðstoð og upplýsingagjöf til ferðamanna, eftirlits með útlendingum auk annarra tilfallandi verkefna.