21 Desember 2015 13:50

Í vikunni bárust fjórar tilkynningar til lögreglunnar um ferðamenn í vanda vegna festu í snjó. Þetta var á Steingrímsfjarðarheiði, Hrafnseyrarheiði og á fleiri fjallvegum.  Björgunarsveitarmenn komu þessum ferðalöngum til aðstoðar.

Alls hafði lögreglan á Vestfjörðum afskipti af þremur ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna sl. viku. Allir voru ökumennirnir stöðvaðir í Skutulsfirði.  Þá var einn ökumaður kærður fyrir ölvun við akstur.  Sá ók um götur Patreksfjarðar.

Fjórir ökumenn voru kærðir, í liðinni viku, fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Um var að hraðamælingar sem fram fóru á Ísafirði.  Þar er hámarkshraði 30 km.  Sá sem hraðast ók mældist á 50 km klst. m.v. klst.

Laust eftir miðnætti, aðfaranótt sunnudagsins 20. desember,  höfðu lögreglumenn afskipti af þremur ungmennum, á aldrinum 15 til 16 ára.  Ungmennin voru saman í kyrrstæðri bifreið í miðbæ Ísafjarðar og reyndust öll vera undir áhrifum áfengis.  Lögreglan hafði samband við forráðamenn barnanna sem sóttu þau.  Barnaverndaryfirvöldum Ísafjarðarbæjar var gert viðvart um afskiptin eins og lög kveða á um.

Lögreglan á Vestfjörðum hefur tekið í notkun handradar. Hraðamælingar geta því farið fram á fleiri stöðum en úr merktum lögreglubifreiðum.  Tilgangurinn með því að taka þennan handradar í notkun er ekki annar en sá að auka umferðaröryggi vegfarenda allra, að fylgja hraðatakmörkunum eftir. Ökumenn eru hvattir til að haga akstri sínum í samræmi við umferðarlög og á þá engu að skipta hvort lögregla sé nálæg/sýnileg eða ekki.  Sá sem fer að lögum þarf ekki að óttast eftirlit lögreglunnar.

Nú í morgun bar góða gesti að garði.  En það voru tveir drengir í miklu jólaskapi. Fyrir hver jól, mörg undanfarin ár, hafa þessir gestir mætt með gítarana sína og jólasveinahúfur og sungið nokkur jólalög fyrir lögreglumenn.  Þetta eru hafnarstjórarnir Guðmundur Kristjánsson (Muggi eða Papa Mugg) og Hjalti Þórarinsson. Þeim var, sem fyrr, vel tekið af lögreglumönnum sem nutu flutningsins og buðu gestum upp á kaffi og meðlæti.  Áheyrendur höfðu á orði að nú mættu jólin koma.  Með þessum orðum og meðfylgjandi mynd af gestunum, óska lögreglumenn á Vestfjörðum Vestfirðingum sem og öllum landsmönnum gleðilegra jóla.

Muggi og Hjalti í heimsókn 2015