22 September 2015 14:55

Um kl.03:00 aðfaranótt 21. september barst lögreglu aðstoðarbeiðni vegna ölvaðs manns sem hafði komist inn um ólæstar dyr íbúðarhúss á Ísafirði. Þegar húsráðendur urðu þessa varir hafði maðurinn sofnað ölvunarsvefni á gólfi íbúðarinnar. Maðurinn gat ekki gert grein fyrir sér eða upplýst um nafn, kennitölu eða dvalarstað. Hann fékk því að gista fangageymslu lögreglunnar og láta renna af sér áfengisvímuna. Þegar hann vaknaði morguninn eftir í fangaklefanum gat hann með engu móti munað hvað hafði gert að verkum að hann fór óboðinn inn í umrædda íbúð.

Lögreglan hefur verið að gera athugasemdir við ljósabúnað nokkurra bifreiða á Vestfjörðum. Mikilvægt er að þessi búnaður sé ávallt í lagi og ekki síður þegar hausta tekur með fækkandi dagsbirtustundum. Þetta á líka við í veggöngunum s.s. í Vestfjarðagöngum. Það er bagalegt þegar bifreiðum er mætt, sem aðeins logar á öðru framljósinu sem dæmi.

Aðfaranótt 17. september var grjóti kastað inn um gluggarúðu í félagsheimilinu í Bolungarvík. Ekki virðist hafa verið farið inn í félagsheimlið en af þessu hlaust töluvert tjón, s.s. á glugganum og gólfefninu fyrir innan gluggann. Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um verknaðinn eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.

Aðfaranótt 20. september höfðu lögreglumenn afskipti af ökumanni fólksbifreiðar og einum farþega. Ástæðan var sú að ökumaður ók bifreiðinni um götur Ísafjarðar með farþega hangandi út um hliðarglugga. Augljós hætta skapaðist af athæfinu. Ökumaður og farþegi mega búast við sektum vegna þessa hátternis.

Um miðjan dag þann 18. september hófst leit björgunarsveita, lögreglu og þyrlu LHG, að ungum smalamanni á Steinadalsheiði. Smölun stóð yfir þennan dag og hafði smaladrengurinn ekki skilað sér og voru liðnar einar 5 klukkustundir frá því hann gekk á fjöll. Ekki náðist símasamband við drenginn og mikil og þétt þoka á heiðinni. Drengurinn kom þó fram þegar leitin var nýhafin. Hann var heill á húfi og hafði villst í þokunni.

Tilkynnt var um eina líkamsárás til lögreglunnar í vikunni. Það mál er til rannsóknar.

Tilkynnt var um fjögur umferðaróhöpp í liðinni viku. Í tveimur tilvikum var um að ræða bílveltu, annars vegar í Álftafirði og hins vegar á Rauðasandsvegi. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum.

Alls voru 5 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Mælingarnar fóru fram í Ísafjarðardjúpi og á og við Skutulsfjörð. Sá sem hraðast ók var mældur á 114 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. m.v. klst.

Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni, grunaður um ölvun við akstur. Það var á Ísafirði aðfaranótt 19. september.