25 Janúar 2016 18:08

Lögreglumenn hafa í vikunni haft afskipti af nokkrum ökumönnum vegna ljósabúnaðar bifreiða þeirra, sem hefur verið ábótavant.  Lögreglan vill hvetja ökumenn til að tryggja að ljósabúnaður sé í fullkomnu lagi.  Það á ekki síst við þennan árstíma og sérstaklega þegar ekið er í gegnum veggöng.

Þá hefur lögreglan gefið bifreiðum sem eru komnar fram yfir tilskyldan skoðunartíma sérstakan gaum og tekið skráningarnúmer af þeim bifreiðum sem uppfylla ekki lögskylda skoðun.  Sama á við um bifreiðar sem fallnar eru úr tryggingu vegna vangreiðslna á iðgjöldum.

Tveir ökumenn voru kærðir í vikunni sem leið fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða, annar í Vestfjarðagöngum og hinn þegar komið var út úr Bolungarvíkurgöngum.

Á mörgum stöðum voru haldin þorrablót og fóru þær skemmtanir vel fram og engin ástæða til afskipta lögreglu.

Veðurblíða hefur verið með eindæmum á Vestfjörðum og vegir margir hverjir auðir.  Þegar slíkar aðstæður verða er vill það oft gerast að ökumenn aka hraðar.  Lögreglan hvetur til þess að ökumenn haldi sig innan hámarkshraða þrátt fyrir betri aðstæður.  Lögreglan mun fylgjast vel með, sem fyrr, að ökumenn fari að lögum.