8 Maí 2017 14:50
Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var stöðvaður við eftirlit lögreglu að morgni 4. maí sl. n.t.t. á Ísafirði.
Annar ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Sá var stöðvaður í miðbæ Ísafjarðar aðfaranótt sunnudagsins 7. maí.
Að kveldi 3. maí lagði lögreglan hald á fíkniefni, n.t.t. nokkur grömm af marihúana.
Einn maður var handtekinn, grunaður um að vera eigandi þessa. Hann hefur viðurkennt vörslu efnanna.
Snemma morguns, laugardaginn 6. maí barst lögreglunni tilkynning um að heimilishundur einn á Ísafirði hafi drepið nokkrar hænur í eigu nágranna. Mál þetta er til rannsóknar hjá lögreglunni. Rétt er að minna hundaeigendur á að hundar gangi ekki lausir í þéttbýlinu.
Alls voru 13 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu en einnig í Ísafjarðardjúpi og á Ísafirði.
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar. Allir voru þessir ökumenn í akstri á Ísafirði.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka með útrunnin ökuréttindi.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í vikunni. Það fyrra var síðdegis sunnudaginn 7. maí þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni, á vegi þar sem ekki er bundið slitlag, n.t.t. við Skershlíð í Patreksfirði. Bifreiðin hafnaði utan vegar og valt. Hvorki ökumann eða farþega sakaði. Bifreiðin var hins vegar óökufær eftir atvikið. Að morgni 4. maí varð annað óhapp þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í Reykhólasveit með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum og valt. Ökumaður, sem var einsamall í bifreiðinni, meiddist ekki enda með öryggisbelti spennt.