9 Janúar 2017 11:25
Lögreglu og slökkviliði í Vesturbyggð barst beiðni vegna reyks sem kom upp í vélarrými báts sem var þá staddur utanvert í Tálknafirði. Björgunarskipið Vörður var sendur frá Patreksfirði áleiðis á staðinn. Sjálfvirkur slökkvibúnaður um borð fór í gang auk þess sem skipverjar notuðu slökkvitæki til að slökkva eldinn. Skipverjum tókst að sigla bátnum til hafnar á Tálknafirði og ekki hlaust frekari hætta af. Rannsókn á tildrögum þessa stendur yfir.
Af og til berst lögreglu kvörtun um lausagöngu hunda í þéttbýli. Slík tilkynning barst um sl. helgi. En þá var hundur laus í miðbæ Ísafjarðar. Starfsmenn sveitarfélaga sjá um að handsama lausa hunda. Mikilvægt er að eigendur hunda fylgi reglum um hundahald. Rétt er að benda á að hundur þarf að vera í taumi ef gengið er með hann í þéttbýli. Margir eru hræddir við hunda og reglunum er m.a. ætlað að tryggja að það fólk geti gengið óttalaust um gangstéttir og göngustíga.
Fimmtán ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í vikunni. Flestir þessara ökumanna voru í akstri á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók mældist á 128 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.
Að kveldi 8. janúar sl. stóðu lögreglumenn í eftirliti ökumann fólksbifreiðar að því að aka öfugt í hringtorgið Sólborg í miðbæ Ísafjarðar. Afskipti voru höfð af ökumanninum, sem virðist hafa gert sér þetta að leik. Hann má búast við sekt fyrir athæfið. Óþarfi er að tíunda hættuna sem þetta getur skapað fyrir aðra vegfarendur.
Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni. En um var að ræða minniháttar árekstur á bifreiðastæði á Ísafirði.
Vegfarendur, sérstaklega þeir sem ætla að leggja í langferð, eru hvattir til þess að afla sér upplýsinga áður um veður og færð. Í því sambandi má nefna upplýsingasíma Vegagerðarinnar sem er 1777 en einnig á heimasíðu vegarerðarinnar sem er http://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/faerd-og-vedur/vestfirdir-faerd-kort/ Hér er síðan slóðin á vefsíðu Veðurstofu Íslands http://www.vedur.is/