29 Febrúar 2016 12:20

Lögreglumönnum á Vestfjörðum tókst að stöðva flutning fíkniefna til Vestfjarða sl. laugardag.  En tveir menn voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi, á leið sinni til Ísafjarðar.  Í bifreið þeirra fundust um 130 grömm af kannabisefnum sem talið er ljóst að hafi átt að fara í dreifingu á Vestfjörðum.  Í framhaldi af handtöku mannanna var farið í húsleit á heimili þeirra og fundust þar um 50 lítrar af ætluðu ólöglega tilbúnu áfengi.   Það er jafnframt talið að hafi átt að fara í dreifingu.  Mennirnir voru í haldi lögreglunnar fram á kvöld en var sleppt þegar málið var talið upplýst.

Fyrr í vikunni hafði lögreglan afskipti af tveimur mönnum, sitt hvorn daginn, grunaðir um að höndla með fíkniefni. Húsleit var framkvæmd á heimli mannanna, á Ísafirði.  Á heimili annars þeirra fundust nokkur grömm af amfetamíni og neysluáhöld og efnisleifar á heimili hins. Þessir menn báðir hafa áður komið við sögu vegna fíkniefnamála.

Einn ökumaður var kærður í liðinni viku grunaður um akstur undir áhrifum áfengis á Ísafirði.

Annar ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis á Patreksfirði í vikunni.

Lögreglan vill minna hundaeigendur í Ísafjarðarbæ á samþykkt um hundahald í bænum. En þar segir m.a. að hundar megi ekki ganga lausir í þéttbýlinu.  Þannig verður hafa taum í hund ef gengið er um göngustíga, gangstéttir eða annars staðar í þéttbýlinu.  Eins er rétt að minna hundeigendur á skyldur þeirra að hirða upp úrgang þann er hundar skilja eftir sig.  Samþykktina er hægt að nálgast hér. http://www.isafjordur.is/utgefid_efni/samthykktir_og_reglugerdir/skra/218/