2 Febrúar 2016 11:06

Í vikunni, n.t.t. þann 31. jan og 1. febrúar, þurftu björgunarsveitir að aðstoða ökumenn sem höfðu fest bifreiðar sínar í snjó, annars vegar á Kleifaheiði og hins vegar á Þröskuldum.

Aðfaranótt 29. janúar þurfti lögreglan að hafa  afskipti af tveimur mönnum sem, vegna óhóflegrar öldrykkju, voru ósjálfbjarga og til vandræða gagnvart samferðafólki sínu.  Annar var á veitingastað á Ísafirði en hinn á gangi í miðbæ Ísafjarðar.  Þeir voru aðstoðaðir við að komast klakklaust heim.

Þá hafði lögreglan afskipti af þriðja ölvaða manninum snemma morguns.  Hann reyndist sofa ölvunarsvefni í runna nokkrum. Maðurinn var vakinn og fór hann til sins heima.

Lögreglan á Vestfjörðum, n.t.t. vakthafandi lögreglumaður á Hólmavík, veitti lögreglunni á Vesturlandi aðstoð snemma morguns þann 31. janúar sl., þegar eldur kviknaði í gistiheimili sunnan Gilsfjarðar.  Lögreglumönnum af Vesturlandi var veitt aðstoð að handtaka ölvaðan mann sem grunaður er um að hafa sett eld að gistiheimilinu umrædda.

Um helgina höfðu lögreglumenn afskipti af skemmtun sem fram fór á veitingastað á norðanverðum Vestfjörðum sem stóð lengur en lög og reglur heimila.  Rekstraraðila hússins var gert að slíta skemmtuninni og var gestum vísað út.  Meint brot rekstraraðilans eru til rannsóknar hjá lögreglunni.

Fjórir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í umdæminu.

Skráningarnúmer voru tekin af fjórum ökutækjum í vikunni.  Í öllum tilvikum var um að ræða vanrækslu á að færa ökutækin til aðalskoðunar.

Þann 28. og 29. janúar sl. barst lögreglunni tilkynning um að tveimur reiðhjólum, sem stóðu fyrir utan heimili eigenda, hafi horfið aðfaranætur fyrrgreindra daga.  Milli kl.13:00 og 15:00 þann 30. janúar mun verðmætri sæng hafa verið stolið af snúrum við einbýlishús eitt í Bolungarvík.  Lögreglan óskar eftir upplýsingum um þessa þrjá þjófnaði í Bolungarvík, hjá þeim sem kunna að búa yfir þeim.

Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í liðinni viku.  Eitt þeirra varð seint að kveldi 28. janúar þegar grjóthnullungar féllu úr Súðavíkurhlíð, á og yfir veginn.  Hrunið varð rétt í þann mund sem flutningabifreið var ekið þar um og gafst ökumanninum, né heldur ökumanni jeppabifreiðar sem var ekið í kjölfarið, ráðrúm til að stöðva bifreiðarnar.  Þeim var báðum ekið yfir nokkur grjót sem lentu á veginum.  Engin slys urðu á ökumönnum eða farþegum.  Ekki liggur fyrir hverjar skemmdirnar urðu á bifreiðunum við þetta óhapp.

Höfð voru afskipti af einum ökumanni í vikunni sem ók með þokuljós kveikt, í þéttbýli. Við afskiptin af ökumanni kom í ljós að hann var ekki með ökuskírteinið meðferðis.

Í vikunni voru alls 11 ökumenn kærðir fyrir að nota farsíma í akstri.  Ökumenn eru hvattir til að nota ekki farsíma í akstri nema notaður sé handfrjáls búnaður.  Öllum ætti að vera ljóst hver hættan er, að nota farsíma án handfrjáls búnaðar, í akstri.  Sektir við þessu broti nemur krónum 5.000.-  Það hlýtur að vera hægt að nota þá fjármuni í eitthvað skynsamlegra.