10 Júlí 2016 12:13

Tilkynnt var um fimm umferðaróhöpp á vegum á Vestfjörðum í liðinni viku. Eitt þeirra varðaði bílveltu á Arnkötludal.  Ökumann, sem var einn í bifreiðinni, sakaði ekki.  Í öðru var um að ræða óhapp sem varð í Kaldbaksvík laugardaginn 9. júlí.  En í miklum vatnavöxtum sem urðu á Ströndum þann dag rofnaði skarð í veginn.  Þar hafði verið ræsi í veginum sem flaut með straumnum.  Ökumaður bílaleigubifreiðar varð þessa ekki var og náði ekki að stöðva bifreiðina áður en að skarðinu kom.  Framendi bifreiðarinnar lenti fram af vegbrúninni.  Ökumann og farþega sakaði ekki og komust klakklaust úr bifreiðinni.  Þeir fengu húsaskjól á næsta bæ.  Hin óhöppin þrjú voru minni háttar og engin slys á ökumönnum eða farþegum í þeim heldur.

Eldsvoði varð á eyðibýlinu Tannanesi í Önundarfirði um miðjan dag þann 4. júlí. Slökkvilið réði niðurlögum eldsins, sem var laus í einu af útihúsum á jörðinni.  Útihús þetta var áfast fleiri útihúsum og loks íbúðarhúsinu.  Slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins og bjarga íbúðarhúsinu þrátt fyrir að aðstæður væru erfiðar, s.s. erfiðleikar við að nálgast vatn til slökkvistarfs.  Rannsókn á orsökum eldsvoðans er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Kl.12:31 laugardaginn 9. júlí bárust boð til stjórnsöðvar Landhelgisgæslunnar frá neyðarsendi. Staðsetning sendisins var á Ófeigsfjarðarheiði.  Björgunarsveitir í Strandasýslu og víðar voru kallaðar út til leitar.  Þá var þyrla LHG kölluð til leitar.  Á þessum tíma var veður slæmt, ekki síst á Ströndum, mikil úrkoma, skyggni lítið og kalt.  Þá rofnaði vegurinn í Kaldbaksvík í sundur vegna vatnavaxta, eins og áður hefur komið fram.  Kl.15:07 lenti þyrla LHG á tilgreindum stað, þaðan sem neyðarboðin bárust.  Þar var einn göngumaður á ferð.  Hann var heill á húfi en orðinn kaldur og hrakinn.  Hann var fluttur með þyrlunni til aðhlynningar.  Neyðarsendar eru bráðnauðsynleg öryggistæki fyrir ferðafólk sem fer um fáfarnar slóðir og fjarri byggð.  Slík tæki er m.a. hægt að leigja hjá Landsbjörgu, sjá upplýsingar hér : http://safetravel.is/is/fjarskipti/neydarsendar/

Við eftirlit lögreglunnar var ökumaður hópbifreiðar stöðvaður. Í ljós kom að bifreiðin sem um ræðir hafði ekki fengið tilskilið hópferðaleyfi.

Alls voru 45 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu en einnig nokkrir í Reykhólasveit og Ísafjarðardjúpi.

Einn maður gisti fangageymslu á Ísafirði. Það var aðfaranótt sunnudagsins 10. júlí.  Sá var ölóður og neitaði að fara að fyrirmælum lögreglunnar og róaðist ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir lögreglumanna.  Því var brugðið á það ráð að færa hann í fangaklefa.  Honum var sleppt lausum þegar af honum var runnin áfengisvíman.

Um helgina var bæjarhátíðin Sæluhelgi á Suðureyri haldin. Allt samkomuhald þar fór vel fram.