17 Maí 2016 15:48

Tvö minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Það fyrra varð á bifreiðastæði við Lyfju á Ísafirði og seinna óhappið á Hjallahálsi á þjóðvegi nr. 60. Í báðum tilfellum var um minniháttar óhöpp að ræða og ekki urðu slys á fólki.

Alls voru 28 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Flest allir voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi og í Strandasýslu.  Sá sem hraðast ók var mældur á 150 km/klst, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst.

Númeraplötur vopru teknar af tveim ökutækjum vegna ástands og vanrækslu á aðalskoðun.

Mánudaginn 9. mai var tilkynnt um skemmdarverk hjólaskóflu sem stóð í Brekkudal við Hrafnseyrarheiði. Ef einhverjir hafa upplýsingar um gerendur þá er sími lögreglu 444-0400.

Lögreglan á Vestfjörðum ásamt fulltrúum frá rannsóknarnefnd samgönguslysa hafa unnið að rannsókn á tildrögum þess að strandveiðibátnum Brekkunes ÍS-110 hvolfdi norðvestur af Aðalvík að morgni miðvikudagsins 11. maí sl.  Eins og komið hefur fram lést skipstjóri bátsins, en hann var einsamall um borð þegar atvikið varð.

Rannsókninni stendur enn yfir. Miðað við það sem komið hefur fram er ekki hægt að útiloka að brot hafi komið á bátinn og honum hvolft af þeirri ástæðu.  Nánari upplýsingar er ekki hægt að gefa að svo stöddu.