4 Apríl 2005 12:00

Í Fréttablaðinu í dag á bls. 2 birtist frétt undir fyrirsögninni “ Meirihluti lögreglubíla úreltur ”.  Í undirfyrirsögn segir “…  og eru tæplega 60% allra bíla lögreglu fimm ára eða eldri ”. Þrátt fyrir að blaðið hafi leitað til ríkislögreglustjóra um upplýsingar um bílamál lögreglunnar og fengið staðfest að þar hafi orðið gjörbreyting á til batnaðar hin síðari ár kýs blaðið að setja fram villandi og í sumum tilfellum rangar upplýsingar um málið. Þannig eru tilgreindar fyrirsagnir til þess fallnar að gefa lesendum blaðsins ranga mynd af stöðu bílamála lögreglunnar.

Rangt er að í umferð séu allnokkrir bílar sem keyrðir hafa verið vel yfir fimm hundruð þúsund kílómetra.  Hið rétta er að það á einungis við um einn bíl sem er nýuppgerður og í fullkomnu lagi og verður því ekki endurnýjaður fyrr en árið 2006. Þá heldur Fréttablaðið því fram að allnokkrir þeirra bíla sem ekið hefur verið meira en þrjú hundruð þúsund kílómetra séu komnir vel yfir fimm hundruð þúsund kílómetra.  Hið rétta er að samtals hefur átta  merktum bílum verið ekið um eða yfir þrjú hundruð þúsund kílómetra og af þeim verða fimm þeirra endurnýjaðir á þessu ári. Tveir þeirra bíla sem ekki verða endurnýjaðir eru af árgerð 2002 og í fullkomnu lagi.   

Rangt er að nýjasti lögreglubíllinn á Seyðisfirði sé fimm ára gamall. Hið rétta er að nýjasti bíllinn er af árgerð 2002 og geta má þess að á þessu ári verða tveir aðrir bílar lögreglunnar á Seyðisfirði endurnýjaðir.

Þá telur Fréttablaðið ástæðu til að geta þess að elsti bíll lögreglunnar sé frá árinu 1989.  Blaðið lætur þess hins vegar ógetið að hér er um brynvarðan vagn að ræða sem er einstaka sinnum notaður í sérstök verkefni og ekki stendur til að endurnýja næstu árin. 

Fréttablaðið gerir engan greinarmun á flokkum lögreglubíla en lögreglan notar ekki einungis merkta forgangsakstursbíla.  Einnig eru notuð ómerkt ökutæki til margvíslegra verkefna sem ekki er ekið í forgangsakstri og því gilda ekki sömu kröfur um aldursviðmiðanir né hversu mikið þeim er ekið.  Af ómerktum bílum eru sjö sem er ekið meira en þrjú hundruð þúsund kílómetra.

Af 150 ökutækjum lögreglu verða 102 þeirra fimm ára og yngri á þessu ári.  Það eru því 68 % ökutækja lögreglu innan þeirra marka að vera fimm ára og yngri á árinu.  Ef einungis eru tekin merkt forgangsökutæki er hlutfallið 78 %.  Það hlutfall hækkar á árinu vegna kaupa ríkislögreglustjóra á 23 bílum.

Tilgreindar fyrirsagnir Fréttablaðsins eru því alrangar.

Ríkislögreglustjóri,  4. apríl 2005.