24 Ágúst 2005 12:00

FRÉTTATILKYNNING FRÁ LÖGREGLUNNI Í REYKJAVÍK

Í frétt í DV í gær, þriðjudag, var greint frá því að maður hefði orðið vitni að átökum Sigurðar Freys Kristmundssonar, þess sem nú sætir gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa banað manni að Hverfisgötu 58, og tvítugs pilts. Kveðst vitnið hafa tilkynnt lögreglunni um átökin ca. 45 mínútum fyrir hinn voveiflega atburð, en lögreglan ekki brugðist við tilkynningunni.

Af þessu tilefni vill lögreglan í Reykjavík taka fram eftirfarandi:

Lögreglan hefur hlýtt á upptöku af símtali umrædds heimildarmanns DV við Fjarskiptamiðstöð lögreglu og kemur þar fram að hann er að tilkynna um ölvað fólk eða undir áhrifum annarra vímuefna, sem er við það að stíga upp í bifreið og hyggst aka austur Hverfisgötu, í átt að lögreglustöðinni. Hann gat ekki sagt til um skráningarnúmer bifreiðarinnar og kemur þar ekki fram að hann hafi orðið vitni að átökum fólks.  Lögreglan brást við þessari tilkynningu en fann ekki bifreiðina í akstri.

Tilkynning umrædds heimildarmanns tengist því á engan hátt þeim atburði sem síðar varð að Hverfisgötu 58.

Lögreglan harmar mjög ónákvæman fréttaflutning DV í þessu máli og ekki síst að blaðamaður skuli ekki hafa leitað eftir sannleiksgildi fréttarinnar áður en hún var birt.

Ingimundur Einarsson,varalögreglustjóri.