9 Júní 2007 12:00
Kl.22:53 í gærkveldi, þann 8. júní 2007 fékk lögreglan á Vestfjörðum tilkynningu, í gegnum Neyðarlínuna, um að ölvaður maður væri að munda skotvopn í íbúðarhúsi einu í Hnífsdal. Eiginkona mannsins hafði flúið af heimilinu yfir til nágranna sinna, þaðan sem tilkynningin barst lögreglunni. Lögreglan fór þegar á staðinn með viðeigandi varnir og gætti öryggis nágranna. Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð út og komu 9 meðlimir hennar með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur staðarlögreglunni til aðstoðar. Þyrlan lenti á Hnífsdalsbryggju kl.00:43. Kl.02:17 kom maðurinn út úr húsinu eftir að sérsveitarmenn höfðu hvatt hann til þess. Maðurinn, sem er á sextugsaldri, var handtekinn þá þegar og færður í fangageymslu á lögreglustöðinni á Ísafirði. Hann var mjög ölvaður.
Maðurinn er grunaður um að hafa hleypt af skoti í nálægð við konuna, skömmu áður en hún yfirgaf húsið. Eiginkonan ber áverka í andliti en þó minniháttar. Hún var til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Ísafirði í nótt.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum og verða frekari fréttir gefnar af gangi mála síðar.