10 Febrúar 2022 17:40

  • 40% 8.-10. bekkinga verið beðin um nektarmynd.
  • Algengast að ókunnugir biðji börn um myndir á netinu.
  • Áfram bætt við fræðsluefni á ofbeldisgátt 112 fyrir börn.

Vika SEX - Viltu hjálp?

Samfélagslöggur hafa heimsótt yfir 1.400 börn í 8. bekk víðsvegar um landið til að fylgja eftir fræðslu- og forvarnaherferð lögreglunnar og Neyðarlínunnar gegn stafrænum birtingarmyndum ofbeldis hjá unglingum. Samfélagslöggurnar munu halda áfram að heimsækja skóla næstu vikurnar en að auki verður sent út fræðsluefni til kennara og foreldra gegn stafrænu ofbeldi í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í þessari viku hefur staðið yfir Vika6, sem er árleg vika kynheilbrigðis fyrir börn og unglinga í grunnskólum og frístundastarfi.  Af því tilefni var útbúið fræðsluveggspjald um kynferðislegar myndsendingar og því dreift í skóla, félagsmiðstöðvar og á bókasöfn. Veggspjaldið verður jafnframt hluti af því fræðsluefni sem er aðgengilegt fyrir börn á vefgátt 112 gegn ofbeldi. Höfundur er Kolbrún H. Sigurgeirsdóttir og hönnuður og teiknari er Bergrún Íris Sævarsdóttir.

Beiðni um nektarmynd frá börnum kemur yfirleitt frá ókunnugum

Veggspjaldið styður vel við fræðsluátak lögreglunnar og Neyðarlínunnar en í nýlegri könnun Fjölmiðlanefndar kom fram að fjögur af hverjum tíu börnum í 8.-10. bekk hafa verið beðin um að senda af sér nektarmynd og rúmlega helmingur ungmenna á framhaldsskólastigi. Á báðum skólastigum er mun líklegra að stelpur fremur en strákar hafi fengið beiðni um að senda eða deila af sér nektarmynd. Algengast er að beiðnin um nektarmynd á netinu komi frá ókunnugum til barnanna.

Fræðslu- og forvarnaherferðin er hluti af aðgerðum gegn stafrænu ofbeldi sem stjórnvöld fólu ríkislögreglustjóra að hafa umsjón með árið 2021 í góðri samvinnu við lögregluembættin á landsvísu, Samband íslenskra sveitarfélaga og stýrihóp um forvarnaráætlun meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.

Frekari fræðslu og upplýsingar er að finna á 112.is 

——-

Nánari upplýsingar veita:

María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi
Ríkislögreglustjóri
mrb@logreglan.is

Jana María Guðmundsdóttir, fræðslu- og kynningarstjóri
Neyðarlínan
jana@112.is