29 Janúar 2009 12:00

Sjö stafrænar hraðamyndavélar voru teknar í notkun á síðasta ári, tvær í Fáskrúðsfjarðargöngum, ein í Hvalfjarðargöngum og fjórar á Reykjanesi.  Samtals eru stafrænar hraðamyndavélar á Íslandi orðnar níu en þær fyrstu voru teknar í notkun í júlí 2007 í Hvalfjarðarsveit. 

Uppsetning vélanna er liður í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda og tilgangurinn sá að draga úr ökuhraða á þjóðvegum og fækka umferðarslysum. Umferðaröryggisáætlun er hluti samgönguáætlunar og vinna samgönguráðuneytið, ríkislögreglustjóri, Umferðarstofa og Vegagerðin að uppsetningu hraðamyndavélanna.  Áætlað er að fjölga hraðamyndavélunum í 16 á næstu árum. 

Með tilkomu stafrænna hraðamyndavéla hefur skráðum hraðakstursbrotum fjölgað til muna.  Um 40% allra hraðakstursbrota sem skráð voru í málaskrá lögreglunnar árið 2008 voru vegna nýtilkominna hraðamyndavéla.  Á síðasta ári voru skráð hraðaksturbrot á Íslandi um 39 þúsund þar af voru um 16 þúsund með stafrænum hraðamyndavélum. 

Nánari upplýsingar um sjálfvirkt hraðaeftirlit fyrir árið 2008 má finna hér.