9 Maí 2008 12:00

Ósannindi DV um embætti ríkislögreglustjóra

Í fréttaskýringu sem DV birti um Baugsmálið 1. maí sl. er ranglega fullyrt að í framhaldi af húsleit hjá Baugi Group hf. hafi Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri lagt drög að því að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group yrði handtekinn á Keflavíkurflugvelli þann 29. ágúst 2002.

Blaðamaður DV segir í fréttaskýringunni að menn á vegum embættis ríkislögreglustjóra hafi verið sendir á Keflavíkurflugvöll til þess að handtaka Jón Ásgeir Jóhannesson. ,,Í kjölfar lögreglunnar fylgdu töku- og fréttamenn frá Ríkissjónvarpinu þess albúnir að mynda atburðarrásina væntanlegu”, segir í blaðinu. Það er fullyrt að ríkislögreglustjóri hafi með þessu viljað sýna Jón Ásgeir Jóhannesson í handjárnum í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Þegar hefur komið fram í fjölmiðlum að hvorki fréttamenn né tökumenn frá Ríkissjónvarpinu voru á staðnum. Það skal einnig áréttað að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri stýrði ekki aðgerðum vegna rannsóknar málsins heldur saksóknari efnahagsbrotadeildar embættisins.

Það er einnig rangt í skrifum blaðamanns DV að lögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra hafi farið í Leifsstöð til þess að handtaka Jón Ásgeir Jóhannesson. Það hefur verið kannað bæði hjá embætti ríkislögreglustjóra og hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli. Í fréttaskýringunni er sagt að ,,atburðarásin hafi vakið athygli og jafnvel hneykslan tollvarða og löggæslumanna á Keflavíkurflugvelli.” Þetta er undarleg fullyrðing í ljósi þess að hvorki lögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra né fulltrúar Ríkissjónvarpsins voru á staðnum.

Embætti ríkislögreglustjóra fer fram á að DV leiðrétti þessar rangfærslur sem fyrst.