21 Mars 2007 12:00

Embætti ríkislögreglustjóra fagnar breytingu á almennum hegningarlögum sem var samþykkt á Alþingi 16. mars sl. Embætti ríkislögreglustjóra hefur ásamt lögreglumönnum lagt áherslu á að slíkar breytingar næðu fram. Breytingin felur m.a. í sér að refsihámark 106. gr. almennra hegningarlaga sem tekur til brota gegn valdstjórninni hefur verið hækkað úr sex ára fangelsi í allt að átta ára fangelsi þegar um er að ræða brot gegn opinberum starfsmönnum sem hafa heimild samkvæmt lögum til líkamlegrar valdbeitingar. Í nefndaráliti allsherjarnefndar var sérstaklega tekið fram að með þessari breytingu sé stefnt að því að refsingar fyrir brot gegn þessum aðilum verði þyngri, en tekið var fram í greinargerð með frumvarpinu að sú refsivernd sem veitt er með ákvæði 106. gr. hafi ekki endurspeglast nægjanlega vel í dómaframkvæmd. Annað mjög mikilvægt nýmæli tekur gildi með lagasetningunni. Refsivert verður að tálma lögreglu í að gegna skyldustörfum sínum en slík brot geta varðað allt að 2 ára fangelsisrefsingu.

Embætti ríkislögreglustjóra telur lagabreytingu þessa mikilvægt skref í að bæta starfsumhverfi lögreglumanna þar sem ljóst er að til þess að almenn varnaðaráhrif refsinga nái fram að ganga er mikilvægt að refsingar séu í samræmi við eðli brota.

Tengiliður embættis ríkislögreglustjóra er Páll E. Winkel, yfirmaður stjórnsýslusviðs.