5 Desember 2016 13:51

Alþingi kemur saman á morgun, 6. desember.
Við upphaf nýs þings verður fjárlagafrumvarp ársins 2017 lagt fram en lögreglustjórar binda vonir við auknar fjárheimildir til lögreglunnar í nýju fjárlagafrumvarpi.
Starfandi lögreglumönnum við lögregluembætti og hjá Lögregluskóla ríkisins fækkaði um 70 á tímabilinu febrúar 2007 til febrúar 2016 og þeim fer enn fækkandi.
Samkvæmt fjárlögum fara um 10,8 milljarðar kr. til lögregluembætta í ár en samkvæmt upplýsingum úr innanríkisráðuneytinu kemur til viðbótar þeirri fjárhæð einskiptis fjárframlag að fjárhæð 238 milljónir kr.
Lögregluembætti landsins voru rekin með halla á síðasta ári og rekstrarhalli stærstu embætta hefur verið viðvarandi mörg undanfarin ár.
Samkvæmt lögum um opinber fjármál, sem tóku gildi 1. janúar 2016, er hallarekstur hvorki í boði né umsemjanlegur enda skýrt tekið fram í lögunum að útgjöld umfram fjárheimild í árslok skulu dragast frá fjárheimild næsta árs.
Á tímabilinu 2007 til 2015 fjölgaði íbúum á Íslandi um 21 þúsund þar af fjölgaði íbúum í umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um 19.363. Þessi íbúafjölgun hefur haft í för með sér aukið álag á lögreglu. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun íbúa á næstu árum.
Fjölgun ferðamanna hefur haft veruleg áhrif á starfsemi lögreglu. Heildarfjöldi ferðamanna sem kom til landsins árið 2015 jafngilti meira en 35 þúsund íbúum á Íslandi yfir sumarmánuðina og er þá miðað við tölur um fjölda gistinátta frá Hagstofu Íslands. Gera má ráð fyrir að þessi tala sé mun hærri.
Að mati lögreglustjóra er brýnt að fjölga almennum lögreglumönnum við störf til að tryggja lágmarksviðveru þeirra á vakt á lögreglustöðvum vítt og breitt um landið og að viðbragð lögreglu við neyðarútköllum geti talist viðunandi í öllum tilvikum.
Lögreglustjórar hafa lagt á það áherslu að í áhöfn lögreglubíla verði ávallt tveir lögreglumenn.
Styrkja þarf tölvu- og tæknirannsóknir.
Þörf er á endurnýjun búnaðar og gríðarlega mikilvægt að lögregla á Íslandi dragist ekki aftur úr þeim erlendu lögregluliðum sem við helst berum okkur saman við.
Áætluð fjárþörf lögregluembætta er um 5 milljarðar kr. umfram fjárheimildir ársins 2016.
Lögreglustjórafélag Íslands væntir þess að Alþingi íhugi stöðu lögreglunnar og bregðist við með viðeigandi hætti í fjárlögum ársins 2017.
Úlfar Lúðvíksson,
formaður Lögreglustjórafélags Íslands.