24 September 2008 12:00
Vegna fréttar í ríkissjónvarpi hinn 17. september 2008 er rétt að leiðrétta misskilning. Af fréttinni mátti ráða að ætlunin væri að leggja niður löggæzlu í Árnessýslu hinn 1. janúar 2009. Það er alrangt
Lögreglan í Árnessýslu hefur lagt metnað í það að halda uppi öflugri löggæzlu. Sá metnaður ræðst ekki af fjölda liðsmanna, þótt vissulega myndi mæða meira á fámennara liði Í Árnessýslu búa um 15.500 manns og sumarbústaðir eru um 7000. Þeir eru mikið sóttir og ætla má að þar haldi um 10.000 manns til að staðaldri að sumrinu og stór hópur að vetrinum.
Það er í mörg horn að líta varðandi löggæzlu, en liðið skipa dugandi lögreglumenn, konur og karlar, sem hafa lagt sig fram um að sinna störfum sínum af fagmennsku undir miklu álagi.
Eðlilegt er að fjölmiðlar sýni störfum lögreglu áhuga og er lögreglan í Árnessýslu engin undantekning.
Líta verður á það sem óhapp með hvaða hætti endanleg frétt kom fyrir augu og eyru landsmanna, þannig að sú ályktun var dregin að að löggæzla legðist af. Allt tal í þá veru er fjarri sanni og verður henni sinnt af metnaði og alúð hér eftir sem hingað til.