7 Júlí 2021 20:02

Í ljósi umfjöllunar fjölmiðla í dag um handtöku sem átti sér stað í Bæjarhrauni í gær þá telur embætti ríkislögreglustjóra rétt að taka eftirfarandi fram um almenna framkvæmd lögreglu:

Þegar lögregla þarf að fylgja eftir beiðnum um brottvísun úr landi eða frávísun þá er sú framkvæmd oft og tíðum þungbær og flókin, bæði fyrir þann sem fyrir henni verður og þann sem þarf að framfylgja henni. Valdbeitingarheimildir eru ekki nýttar í slíkum tilvikum nema brýna nauðsyn krefji en lögregla forðast almennt valdbeitingu við handtökur. Þegar þess gerist þörf þá er það ávallt samkvæmt mati stjórnanda á vettvangi. Leitast er við að beita vægustu mögulegu aðferðum en starfsfólk lögreglu er þrautþjálfað til að takast á við slíkar aðstæður og forðast að af þeim skapist meiðsl.

Lögregla beitir ekki rafbyssum undir neinum kringumstæðum enda hefur hún ekki heimild til að beita slíkum tækjum. Þá sprautar lögregla aldrei einstaklinga, slíkt er ávallt í höndum heilbrigðisstarfsmanna, sem taka slíka ákvörðun sjálfstætt í ljósi aðstæðna hverju sinni.

Hafa verður það í huga að lögreglu ber að framfylgja lögum eftir að einstaklingar hafa fullnýtt þann rétt sem þeir hafa til að kæra stjórnvaldsákvarðanir og eru slíkar aðgerðir aldrei fyrirvaralausar. Þá er einstaklingum nær undantekningarlaust gefið færi á að yfirgefa landið sjálfviljugir áður en farið er í aðgerðir sem til komnar eru vegna ákvarðana sem íslensk stjórnvöld hafa tekið s.s. vegna ólöglegrar dvalar í landinu.

Áréttað skal að ekki er unnt að veita upplýsingar um einstök mál þó að lögregla hafi á því skilning að aðgerðir sem þessar veki spurningar. Unnið er að því að tryggja og yfirfara öll tiltæk gögn málsins, komi til þess að kæra eða kvörtun berist vegna umræddrar aðgerðar. Að öðru leyti mun embætti ríkislögreglustjóra ekki veita nánari upplýsingar um málið að sinni.