19 Október 2009 12:00

Mikið er um stöðubrot í Reykjavík en um helgina hafði lögreglan afskipti af um eitt hundrað ökutækjum vegna þessa. Einkum var um að ræða bifreiðar í miðborginni og nágrenni hennar. Með stöðubroti er átt við ökutæki sem er lagt ólöglega, m.a á gangstéttum. Umráðamönnum þessara ökutækja er gert að greiða 2500 kr. en gjaldið rennur í Bílastæðasjóð. Í þessum áðurnefnda  hópi ökumanna eru fullfrískir einstaklingar sem lögðu í stæði sem eru sérmerkt fötluðum og höfðu þar af leiðandi til þess enga heimild. Jafnvel á bílastæðum þar sem næg stæði er að hafa geta sumir ökumenn ekki virt þessa sjálfsögðu reglu en svo virðist sem leti sumra ríði ekki við einteyming. Þeim og öðrum til glöggvunar er hér birt umferðarmerkið sem sýnir þegar bifreiðastæði er ætlað fötluðum og engum öðrum.