23 Ágúst 2009 12:00
Talið er að 100 þúsund manns hafi verið á Menningarnótt í miðborginni í gærkvöld en hátíðin gekk almennt vel fyrir sig. Að venju hafði lögreglan mikinn viðbúnað en fjölmörg verkefni komu á hennar borð. Útköllum fjölgaði eftir því sem leið á daginn og nóttina en greiðlega gekk að leysa flest málin. Afskipti voru höfð af ölvuðu fólki en skipulega var unnið gegn áfengisdrykkju og ólöglegri útvist barna og unglinga. Þeir sem höfðu ekki aldur til að vera úti við var vísað heim eða færðir í athvarf. Nokkru magni af áfengi var hellt niður en þó ekki í meira mæli en undanfarin ár. Lögreglumenn voru almennt frekar sáttir með ástandið en þess má geta að fangaklefar lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu voru ekki fullnýttir í nótt. Það verða að teljast mjög jákvæðar fréttir og vonandi verður svo áfram á Menningarnótt.
Líkt og undanfarin ár naut lögreglan liðveislu ýmissa aðila á Menningarnótt, m.a. björgunarsveitarmanna. Samstarfið gekk mjög vel og eru hlutaðeigandi aðilum færðar bestu þakkir fyrir aðstoðina.