19 Febrúar 2007 12:00

Hundrað og fimm ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Allmargir þeirra óku á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða en lögreglan stöðvaði slíkan glannaakstur í Norðurfelli, Stekkjarbakka, á Hringbraut, Eiðisgranda og Hafnarfjarðarvegi. Fjórum öðrum  ökumönnum var veitt eftirför en þeir óku líka á ofsahraða. Þá stöðvaði lögreglan sex ökumenn sem höfðu aldrei öðlast ökuréttindi eða voru sviptir ökuleyfi.

Þessu til viðbótar hafði lögreglan afskipti af fjölmörgum öðrum ökumönnum fyrir ýmsar sakir. Þar má nefna akstur gegn rauðu ljósi, akstur gegn einstefnu, vanrækslu á merkjagjöf og notkun farsíma án handfrjáls búnaðar. Ellefu voru með útrunnið ökuskírteini og sjö ökumenn gátu ekki framvísað ökuskírteini þegar eftir því var leitað.

Fimmtíu og fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í tíu tilvikum var um afstungu að ræða, þ.e. tjónvaldurinn hvarf af vettvangi.