12 Febrúar 2020 16:00
112-dagurinn var haldinn í gær, en af því tilefni mátti víða sjá útkallstæki viðbragðsaðila við helstu stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu í gærmorgun og síðdegis. Auk þessa voru afhent verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2019 og Skyndihjálparmaður Rauða krossins var útnefndur, en það var gert við sérstaka athöfn í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Þar tók Lögreglukórinn lagið við góðar undirtektir og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp. Á annarri myndinni má sjá Lögreglukórinn hefja upp raust sína, en á hinni eru Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ásamt forsetanum, en hann fékk auðvitað skoðunarferð um Björgunarmiðstöðina.