10 Febrúar 2017 11:27

Mikið hefur mætt á okkar fólki og starfsfólki og sjálfboðaliðum hinna ýmsu viðbragðsaðila að undanförnu. Nú viljum við nota 112-daginn til að gera okkur glaðan dag, bjóðum almenningi að hitta okkur við Reykjavíkurhöfn, skoða tækin okkar, spjalla og kynnast þessari mikilvægu starfsemi, segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, en mikil dagskrá verður á vegum 112 og viðbragðsaðila í tilefni af 112-deginum, 11. febrúar, sem haldinn er um allt land ár hvert.

Allir velkomnir!

Ráðstefna föstudag kl. 13-16

112 stendur fyrir ráðstefnu um þróun samskiptatækni og áhrif hennar á rekstur neyðarlínu og öryggi almennings kl. 13-16 í dag, föstudag. Fyrirlesarar eru meðal annars frá 911 í Bandaríkjunum og 112 í Evrópu. Ráðstefnan er haldin á Grand Hótel Reykjavík. Ráðstefnustjóri er Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Tækjasýning við Hörpu og Reykjavíkurhöfn laugardag kl. 13-16

Laugardaginn 11. febrúar verður tækjasýning á Hörputorgi og við Reykjavíkurhöfn kl. 13-16. Viðbragðsaðilar sýna margvíslegan búnað á Hörputorgi og almenningi er boðið að skoða varðskipið Þór og Sæbjörg, slysavarnaskóla sjómanna, við Faxagarð.

Björgum forsetanum laugardag kl. 14.30!

Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæsla Íslands bjarga forseta Íslands úr Reykjavíkurhöfn laugardaginn 11. febrúar kl. 14.30. Fulltrúar 112 og viðbragðsaðila taka á móti forseta við Hörpu kl. 13.30. Hann kynnir sér tækjasýninguna en fer síðan með björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar út á Reykjavíkurhöfn þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar kemur honum til bjargar kl. 14.30.

Dagskrá í Flóa í Hörpu laugardag kl. 15

  • Ávarp: Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra
  • Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2016 afhent
  • Eva Björk Eyþórsdóttir og Ragna Björg Ársælsdóttir, starfsmenn bráðamóttöku LSH, syngja við undirleik Viðbragðssveitarinnar
  • Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur

Samstarfsaðilar 112-dagsins

Við stöndum saman að 112-deginum 2017: 112, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn á Íslandi, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Mannvirkjastofnun, Landspítali, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjórinn, Embætti landlæknis, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofa, Landhelgisgæsla Íslands, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.