16 Maí 2007 12:00

Um tíuleytið í gærkvöld var tilkynnt um umferðaróhapp á bílastæði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar lögreglumenn komu á vettvang mátti sjá að þar hafði orðið tveggja bíla árekstur. Tjónvaldurinn reyndist vera 13 ára stúlka sem hafði sest undir stýri bíls og ekið honum á annan bíl sem var kyrrstæður á sama bílastæði. Aðspurð sagðist stúlkan hafa ætlað að bakka bílnum út úr stæðinu, snúa honum við á planinu og síðan hugðist hún bakka bílnum aftur á sama stað. Þess má geta að bíllinn sem stúlkan ók var bæði ólæstur og í gangi þegar hún fékk þessa fáránlegu hugdettu. Ekki er ljóst um hversu mikið tjón er að ræða.

Tuttugu og fjögur önnur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær, flest minniháttar. Lítið bar á hraðakstri en þó á tæplega þrítugur karlmaður ökuleyfissviptingu yfir höfði sér en sá ók um íbúðargötu langt yfir leyfðum hámarkshraða. Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur og þá stöðvaði lögreglan tvo ökumenn til viðbótar sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.