26 September 2006 12:00

Nokkuð er kvartað yfir akstri mótorkrosshjóla og ein slík barst lögreglunni í Reykjavík í gær. Hún kannaði málið og skömmu síðar birtust tvö þannig ökutæki en ökumenn þeirra reyndu að aka á brott. Lögreglan náði öðrum þeirra og reyndist ökumaðurinn vera réttindalaus en hann er 14 ára. Báðum hjólunum var ekið um þar sem börn voru að leik. Það er stórhættulegt eins og flestum ætti að vera ljóst.

Pilturinn mun hafa fengið samþykki móður sinnar fyrir akstrinum en hann hafði lofað að halda sig í götunni við heimili sitt. Það skal áréttað að enginn getur veitt leyfi fyrir slíkum akstri, ekki einu sinni foreldrar. Þetta mál er ekkert einsdæmi en ungir ökumenn þessara hjóla hafa gjarnan freistast til að aka um göngustíga og á skólalóðum. Þar á svona akstur ekki heima og það eiga foreldrar að brýna fyrir börnum sínum. Sömuleiðis eiga þeir að tryggja að öll tilskilin réttindi séu fyrir hendi og þá að beina akstrinum á viðeigandi svæði.