5 Mars 2007 12:00

Tíu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina og fjórir fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Þetta voru allt karlmenn, flestir á þrítugsaldri. Tveir í hópnum er undir tvítugu. Annar þeirra, 19 ára, lenti í umferðaróhappi í Breiðholti á föstudag en hinn, 17 ára, velti bíl sínum á Kjósarskarðsvegi í nótt. Sá síðarnefndi fékk bílpróf fyrir tæpum þremur vikum.

Sá næstelsti í hópnum, 54 ára, var tekinn á Álftanesi aðfaranótt laugardags. Hann var á stolnum bíl en maðurinn var sviptur ökuréttindum í síðustu viku. Viðkomandi kom aftur við sögu lögreglu síðdegis í gær en þá var maðurinn stöðvaður í miðborginni en að þessu sinni var hann fótgangandi. Í fórum hans var bakpoki með ýmsum varningi sem maðurinn gat ekki gert grein fyrir. Bakpokinn var haldlagður.

Í einu tilviki lét ökumaður sér ekki segjast þegar honum var gefið stöðvunarmerki. Viðkomandi, sem er 24 ára, var veitt eftirför nokkurn spöl síðdegis á laugardag Með honum í bíl voru fjórir aðrir karlmenn. Ökumaðurinn og farþegarnir voru allir mjög ölvaðir. Liðlega sólarhring síðar var flutningabifreið með 40 feta gámi á tengivagni stöðvuð í Mosfellsbæ. Áfengi fannst í bílnum og var ökumaðurinn, sem er um sextugt, látinn gangast undir öndunarpróf á staðnum og síðan fluttur á lögreglustöð í framhaldi af því.