11 Júlí 2007 12:00

Allnokkrir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Í þeim hópi var 15 ára stúlka sem var stöðvuð í íbúðargötu í Hafnarfirði en þar voru lögreglumenn við hraðamælingar. Bíll stúlkunnar, sem hún virðist hafa tekið í leyfisleysi heima hjá sér, mældist langt yfir leyfðum hámarkshraða. Eins og gefur að skilja hefur stúlkan aldrei öðlast ökuréttindi og á greinilega margt ólært þegar umferðin er annars vegar. Sama má segja um jafnaldra hennar sem var stöðvaður á svokallaðri vespu í einu úthverfa borgarinnar. Þar var á ferð piltur sem reyndist ekki hafa réttindi til að stjórna þannig ökutæki. Til að bæta gráu ofan á svart var strákurinn með farþega á vespunni og var sá ekki með hjálm.

Einn ökumaður var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða en hann var tekinn fyrir hraðakstur í Kópavogi. Um var að ræða rúmlega tvítugan pilt en bíll hans mældist á 68 km hraða í íbúðargötu þar sem leyfður hámarkshraði er 30.